Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Yfir 100.000 dáin úr COVID-19 á Ítalíu

09.03.2021 - 01:37
epa09056289 Few People walk on the streets and squares of the semi-deserted center of Naples, Italy, 06 March 2021. Campania Region returns to the Covid red zone from Monday 08 March. Too many daily coronavirus infections and the nightmare of the variants underlying the decision, after the data that emerged from the weekly monitoring of the Higher Institute of Health.  EPA-EFE/CESARE ABBATE
Ítalir, eins og aðrir, binda miklar vonir við að bólusetning meirihluta þjóðarinnar verði til þess að mannlífið færist aftur í fyrra horf. Þessi mynd er tekin í miðborg stórborgarinnar Napólí, laugardaginn 6. mars 2021. Mynd: EPA-EFE - ANSA
Yfir 100.000 manns hafa nú dáið af völdum COVID-19 á Ítalíu svo vitað sé, samkvæmt gögnum ítalskra heilbrigðisyfirvalda og Johns Hopkins háskólans í Maryland. Mario Draghi, forsætisráðherra Ítalíu, ávarpaði landa sína af þessu dapurlega tilefni í gær. Forsætisráðherrann sagði þetta skelfilegan veruleika, sem enginn hefði getað ímyndað sér fyrir ári síðan og ítrekaði heit sín um að setja aukinn kraft í bólusetningarherferð stjórnvalda.

318 dauðsföll voru rakin til COVID-19 á Ítalíu síðasta sólarhringinn og eru þau þá alls orðin 100.103 talsins, fleiri en í nokkru öðru Evrópulandi nema Bretlandi. Rúmlega þrjár milljónir manna hafa greinst með COVID-19 á Ítalíu.

Í ávarpi sínu sagði Draghi farsóttina ekki sigraða enn, en aukinn gangur í bólusetningu landsmanna gæfi tilefni til bjartsýni um framhaldið. Heilbrigðisráðherra Ítalíu, Roberto Speranza, sagði á sunnudag markmiðið vera að bólusetja alla landsmenn vel fyrir haustið. Í dag, þriðjudag, er liðið rétt ár frá því að Ítalir gripu fyrst til víðtækra lokana og ferðabanns til að stemma stigu við útbreiðslu COVID-19, fyrstir Evrópuþjóða. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV