Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Þorsteinn Már kærir Jóhannes fyrir rangar sakargiftir

09.03.2021 - 16:47
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, hefur kært uppljóstrarann Jóhannes Stefánsson til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir rangar sakargiftir vegna fullyrðinga um tilraun til manndráps og frelsissviptingar. Þorsteinn segir Jóhannes nú freista þess að blekkja fólk til að leggja fé í söfnun undir þeim formerkjum að honum hafi verið sýnt banatilræði.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu á vef Samherja. 

Þar segir að tilefni kærunnar séu ýmis ummæli sem Jóhannes eða fólk á hans vegum hafi látið falla vegna „fjársöfnunar sem er hafin undir þeim formerkjum að tryggja þurfi Jóhannesi heilbrigðisþjónustu vegna eitrunar því íslenskt heilbrigðiskerfi ráði ekki við það verkefni að veita honum bót meina sinna.“

Fullyrt sé berum orðum á vefsíðu fyrir umrædda fjársöfnun að Jóhannes sé fórnarlamb manndrápstilraunar sem hafi átt sér stað í Höfðaborg í Suður-Afríku snemma árs 2017. Og að Jóhannes hafi í viðtali við namibískt dagblað sagt að fyrrverandi vinnuveitandi hans hafi haft fulla vitneskju um hana. 

Á vef Samherja er vitnað í kæruna þar sem kemur fram að Jóhannes kunni að hafa gefið í skyn að forstjóri Samherja hafi á einhvern hátt tengst meintri eitrun og tilraunum til að nema hann á brott. „Þannig virðist Jóhannes vera að reyna að koma því til leiðar að forstjóri Samherja verði sakaður um þessi brot, þ.e. tilraun til manndráps og tilraun til frelsissviptingar eða einhvers konar hlutdeild eða tengsl við slík brot.“

Þess er krafist að lögreglurannsókn verði hafin, tekin verði skýrsla af Jóhannesi og gagna aflað frá suður-afrískum lögregluyfirvöldum. „Þá er lögreglunni bent á það gæti talist eðlilegt að rannsaka í leiðinni hvort fjársvik hafi verið framin í tengslum við fjársöfnunina sem áður er getið.“

Haft er eftir Þorsteini að honum sé gróflega misboðið og óhjákvæmilegt sé að spyrna við fótum. „Þetta er allt saman ósköp dapurlegt.“

Jóhannes sagði í Kastljósi í desember fyrir tveimur árum að eitrað hefði verið fyrir honum oftar en einu sinni í gegnum drykkjarföng og mat. Hann sagði jafnframt að namibískan lögreglan væri með til rannsóknar ítrekaðar tilraunir til að hann ráða hann af dögum og að hann hefði á tímabili verið með 13 lífverði. 

Jóhannes lak gögnum til Wikileaks um starfsemi Samherja í Namibíu og málið komst í hámæli eftir að umfjöllun um gögnin birtust í fréttaskýringaþættinum Kveik, á vef Stundarinnar og hjá sjónvarpsstöðinni Al Jazeera. 

Sex fyrrverandi og núverandi starfsmenn Samherja hafa réttarstöðu sakbornings í rannsókn héraðssaksóknara hér á landi. Rannsóknin beinist meðal annars að meintum mútubrotum og peningaþvætti.  Yfirvöld í Namibíu hafa gefið út ákæru á hendur vel á þriðja tug manna vegna málsins. Þeirra á meðal eru þrír Íslendingar. Þar eru þeir sakaðir um brot gegn lögum um skipulagða glæpastarfsemi, skattsvik og peningaþvætti. Þeir eiga að mæta fyrir dóm í lok næsta mánaðar.   Forsvarsmenn Samherja hafa neitað sök.

ATH: Í fréttinni kom fram að umfjöllun fjölmiðla um Samherjaskjölin hefði orðið kveikjan að rannsókn yfirvalda í Namibíu. Hið rétta er að málið hafði verið þar til rannsóknar í heilt ár áður en þáttur Kveiks var sýndur.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV