Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Stefna á tæplega sjö þúsund tonna laxeldi í Djúpinu

Mynd með færslu
 Mynd: T.Halleland - NRK
Mast hefur nú unnið tillögu að rekstrarleyfi fyrir 6.800 tonna eldi á frjóum og ófrjóum laxi í Ísafjarðardjúpi fyrir Háafell ehf. Fyrirtækið heyrir undir Hraðfrystihúsið Gunnvöru og er nú þegar með leyfi fyrir 6.800 tonna regnbogasilungseldi í Djúpinu sem mun þá víkja fyrir nýju leyfi til laxeldis.

Tólf til fjórtán af 30 þúsund tonnum mega vera frjór lax

Háafell er eitt þriggja fyrirtækja sem sækist eftir því að hefja sjókvíaeldi á laxi í Ísafjarðardjúpi. Hin tvö eru Arctic Sea Farm sem hefur sótt um 10.100 tonna eldi og Arctic Fish sem tækist eftir tíu þúsund tonnum. Burðarþol Ísafjarðardjúps eru 30 þúsund tonn, en þar af mega einungis tólf til fjórtán þúsund vera frjór lax. Það var niðurstaða áhættumats erfðablöndunnar sem var staðfest í fyrra.

Í áliti Skipulagsstofnunar segir að í ljósi áhættumatsins þá geri Háafell ráð fyrir því að framleiða ófrjóan lax á einu af þremur árgangasvæðum eldisins. Í það minnsta fyrst um sinn. Frjór lax sé þó aðalvalkostur fyrirtækisins þar sem hann sé hagkvæmari en eldi á ófrjóum laxi. Þá séu aðstæður í Djúpi ekki ákjósanlegar fyrir landeldi.

Gera ráð fyrir að lax sleppi úr kvíum

Þá segir Skipulagsstofnun að gera verði ráð fyrir að lax sleppi úr eldinu og að hann sé líklegur til að sækja í mestum mæli upp í laxveiðiár í Ísafjarðardjúpi. Hins vegar metur hún sem svo að áhrifin á laxastofnana í ám í Djúpinu verði óveruleg. Meðal annars þar sem kvíar með frjóum lax verða ekki staðsettar lengra inn í Djúpinu en sem nemur línu sem dregin er frá Ögurnesi að Æðey og Hólmasundi.

Hægt er að skila inn athugasemdum við tillöguna til 6. apríl.