Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skólastarfinu umturnað vegna rakaskemmda í húsnæði

Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót / RÚV
Starfsemi Grundaskóla á Akranesi hefur nú verið stokkuð upp og henni dreift á sjö mismunandi staði í bæjarfélaginu eftir að rakaskemmdir og aðrir ágallar á húsnæðinu komu í ljós.

Skólastofur eru yfirgefnar og þau borð, stólar og námsgögn sem var forðað úr lokuðum álmum í Grundaskóla hafa verið sótthreinsuð í bak og fyrir. Rakaskemmdir eru víða í skólanum og glerullaragnir hafa dreifst um andrúmsloftið í stofum yngstu bekkja vegna ófullnægjandi frágangs. 

Tveir þriðju af húsnæði skólans eru nú lokaðir og starfsemi hans hefur verið dreift á sjö mismunandi staði. Meðal annars í Tónlistarskóla Akraness og í Fjölbrautaskóla Vesturlands. 

Samstilltur hópur í risa skóla

Sigurður Arnar Sigurðsson, skólastjóri, segir það stórt verkefni að endurskipuleggja skólastarfið með þessum hætti.

„Þetta er flókið verkefni, þetta er risa skóli. Hér starfa nemendur og starfsmenn, um átta hundruð manns. Þannig það þarf að hafa samstarf og samráð við mjög marga. En þetta er samstilltur hópur og við erum ákveðin í að leysa það.“

Brá að heyra fréttirnar

Kláði, hæsi og önnur heilsufarseinkenni hafa sýnt sig á meðal nemenda og starfsfólks.

„Það er ekki hægt að segja annað en að okkur hafi brugðið. Sérstaklega vegna þess að svona lagað er ekki eitthvað sem gerist allt í einu,“ segir Valgarður Lyngdal Jónsson, forseti bæjarstjórnar. 

Endurbætur eru hafnar á hluta skólans. Fyrstu niðurstöður komu í ljós fyrir helgi og í gær, mánudag, tók breytt fyrirkomulag við. Á næstu dögum kemst á hreint hvort mygla sé í húsnæðinu og þá hversu slæm. 

Þið eruð ekki komin með þessa lokaniðurstöðu en var samt tilefni til þess að grípa til svona róttækra aðgerða?

„Það er betra að ganga lengra og bakka en að fara of skammt og sitja uppi með eitthvað verra,“ segir Sigurður Arnar.

Grípa hefur þurft til ráðstafana í þó nokkrum skólabyggingum á Íslandi vegna myglu og rakaskemmda síðustu ár. 

Skólastarfið með öðru sniði jafnvel fram til 2022

Búast má við að skólastarfið verði undir einhverjum áhrifum vegna þessa út þetta skólaár. Raunar jafnvel fram til 2022, en Valgarður segir að ráðast eigi í gagngerar endurbætur á yngsta stiginu.

„Við sjáum það að úr því að við þurfum að ráðast á þessa hæð og í raun og veru bara fara í mjög viðamiklar aðgerðir á henni þá göngum við bara alla leið. Þá förum við bara að skoða hvernig við höfum þetta húsnæði til framtíðar.