Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir að tryggt verði að engir hópar lækki í launum

Mynd með færslu
 Mynd: BSRB
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir mikla vinnu hafa verið lagða í að tryggja að markmið vaktavinnubreytinga samkvæmt kjarasamningum náist. Tollverðir á Keflavíkurflugvelli hafa lýst yfir óánægju með fyrirhugaðar breytingar á vaktavinnukerfinu sem ætlað er að taki gildi 1. maí næstkomandi.

Tollverðir krefjast þess að séð verði til þess að kjör þeirra skerðist ekki við breytinguna og að kerfinu verði haldið fjölskylduvænu.

„Við höfum heyrt af óánægju en það er hluti af þessu verkefni að innleiða þessa stóru kerfisbreytingu í skrefum. Það er margt sem enn á eftir að skýrast og heildarmyndin er ekki alveg ljós,“ segir Sonja Ýr í samtali við fréttastofu.

„Það er í mörg horn að líta í þessu verkefni, áskoranirnar eru mismunandi milli vinnustaða. Við teljum að fólk sé í grunninn heilt yfir sátt við að verið sé að reyna að taka skref í átt að bættu vaktavinnuumhverfi.“

„Mér skilst að enn þá sé vaktaskipulagið til skoðunar á Keflavíkurflugvelli. Fyrst þarf að fara í greiningarvinnu og umbótasamtal sem snýst um að starfsfólk og stjórnendur finni bestu leiðirnar í sameiningu.“

Sonja segir að í framhaldinu sé metið hvernig manna skuli vinnustaðinn frá sjónarhóli þeirrar þjónustu sem veitt er.

„Verið er að búa til nýtt vaktaskipulag í samræmi við þessar kerfisbreytingar með það markmið að tryggja öryggi, betri heilsu og jafnvægi vinnu og einkalífs.“

Verkefnið er viðamikið

Að sögn Sonju er verkefnið viðamikið og sníða þurfi af vankanta á ýmsum vinnustöðum.

En dugar tíminn fram að 1. maí til þess?

„Eins og staðan er núna eiga stjórnendur að vera að vinna að nýju vaktaskipulagi. Þetta er samstarfsverkefni samtaka launafólks og launagreiðenda og ekkert sem gefur til kynna að tíminn dugi ekki til.“

Í máli Sonju kemur fram að síðastliðið ár hafi verið unnin mikil undirbúningsvinna og því lokametrarnir fram undan. „Á þeim dögum verður heildarmyndin sýnilegri félagsmönnum.“

Tollverðir segja lífsgæði skerðast með breytingunni og laun þeirra lækka.

„Það er skýr forsenda í kjarasamningnum að kerfisbreytingin sjálf á ekki að leiða til lækkunar launa starfsfólks. Ef starfsfólk er komið með drög að nýju vaktaskipulagi í hendurnar er hægt að skoða útkomuna með reiknivél sem má finna á betrivinnutimi.is. “

Að sögn Sonju þarf vaktaskipulagið að vera til og að fylgt verði fast eftir og tryggt að engir hópar lækki í launum. Markmiðið sé að stuðla að betri heilsu og öryggi ásamt jafnvægi vinnu og einkalífs.

„Til að mæta neikvæðum áhrifum af vaktavinnu á fjölskyldulíf og heilsu verður vinnutími þess styttur meira en hjá dagvinnufólki. Verið er að stytta úr 40 stunda vinnuviku í 36 tíma, sem gæti farið niður í 32 hjá þeim sem hafa þyngstu vaktabyrðina.“

Sonja segir vinnutíma þess fólks geta styst um tæpa viku á mánuði, sem auki frítíma, möguleika á endurheimt og tíma með fjölskyldunni.

Mesta breyting á vinnutíma í hálfa öld

En eru til leiðir til að koma í veg fyrir að vaktavinnufólki verði gert að vinna meira?

„Stærsti liðurinn í þessu verkefni er menningarbreytingin því fólk er fast í viðjum vanans. Ýmis verkfæri eru til og leiðbeiningar eru gefnar til endurskipulagningar til að styttingin bitni ekki á afköstum.“

Á vinnustöðum vaktavinnufólks segir Sonja að meiri mannskapur komi inn á móti til að tryggja að fólk þurfi ekki að hlaupa hraðar. „Ef breytingin leiddi til að heildarvinnutíminn lengdist og færi yfir í yfirvinnu hefði okkur mistekist.“

Sonja segir viðbúið að þegar verið sé að taka upp glænýtt kerfi taki tíma fyrir heildarmyndina að skýrast. „Það er ekki einkamál hvers vinnustaðar hvernig breytingin er framkvæmd“, segir hún og á ferðinni sé samstarfsverkefni allra.

Hún segir að samtök launafólks fylgi því fast eftir að þeim markmiðum sem stefnt er að verði náð.

„Það tekur tíma að sníða af alla vankanta og það er þolinmæðisverk. Þetta er mesta breyting á vinnutíma í hálfa öld og auðvitað koma upp einhverjir byrjunarörðugleikar en við erum sannfærð um að þetta sé mikið framfaraskref.“