Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ólga í garð BSRB meðal tollvarða á Keflavíkurflugvelli

Mynd með færslu
 Mynd: Þórhildur Þorkelsdóttir - RÚV
Tollvörðum í vaktavinnu finnst sem komið hafi verið aftan að þeim með með gerð kjarasamings BSRB. Því er mikil ólga í hópi starfsmanna, að sögn Jens Guðbjörnssonar trúnaðarmanns tollvarða á Keflavíkurflugvelli.

Tollverðir á Keflavíkurflugvelli lýsa yfir vonbrigðum með kjarasamning BSRB og telja hann ekki uppfylla þau markmið sem í honum felast.

Jafnframt segja tollverðir að kjör skerðist hjá vaktavinnustarfsfólki Tollgæslunnar þrátt fyrir yfirlýsingar um annað. Breytingarnar taka gildi 1. maí 2021. 

Því krefjast tollverðir þess að vaktakerfið verði áfram þannig að það verði fjölskylduvænt líkt og verið hefur um áratugaskeið og að kjör verði ekki lakari en verið hefur. 

Í yfirlýsingu tollvarða er breytingin sögð gera samþættingu fjölskyldulífs og vinnu erfiðari sem hafi áhrif á andlega, líkamlega og félagslega heilsu starfsfólks.

Helstu kjarabreytingarnar eru, samkvæmt upplýsingum á vef BSRB, að vinnuvika styttist hið minnsta úr 40 stundum í 36 með möguleiki á styttingu í 32 stundir.

Vaktaálagsflokkum fjölgar og greiddur verður sérstakur vaktahvati auk þess sem möguleikar vaktavinnufólks að vinna hærra starfshlutfall aukist og þannig geti vaktavinnufólk hækkað tekjur sínar.

Með breytingunum taka tollverðir upp þrískipt vaktakerfi í stað tvískipts áður, sem þeir segja að þýði að vinnutími frá klukkan 14 til 23 á virkum dögum verði allt að þriðjungur vinnutíma, án þess að vaktaálag sé hækkað.

„Það þarf ekki sérstakan vinnusérfræðing til að sjá að slík skipulagning vinnu hefur ekki æskileg áhrif á einkalíf starfsmanns  eða tækifæri hans til sinna fjölskyldu eða áhugamálum eftir bestu getu.“

Tollverðir segja styttingu vinnuvikunnar tímabæra en aðferðin sé ekki vænleg og niðurstaðan bæti ekki lífskjör. Það komi tollvörðum á óvart að stéttarfélag semji um vinnuumhverfi sem lækki kjör starfsmanna og hefur að auki óæskileg áhrif á lífsgæði fólks af öllum kynjum, aldri, stétt og stöðu.