Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Mál grunaðs samfélagsmiðlaþrjóts komið til ákærusviðs

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mál karlmanns um þrítugt, sem Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði í síbrotagæslu að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í byrjun febrúar er komið til ákærusviðs.

Maðurinn situr í gæsluvarðhaldi til 26. mars næstkomandi. Hann er grunaður um fjársvik í allnokkrum málum með því að hafa selt ýmsan varning í gegnum Facebook en látið hjá líða að afhenda kaupendum hann. 

Við rannsókn málsins kviknaði grunur um að maðurinn hafi stundað athæfi sitt undir ýmsum nöfnum. Lögregla og samtök neytenda vara iðulega við slíkri svikastarfsemi á Netinu og ekki síst á samfélagsmiðlum. 

Þar þekkist að kaupandi greiði fyrir vöru en seljandi efni ekki loforð um að senda hana eða afhenda. Þeir sem ætli sér að hlunnfara aðra komi þá oft fram undir fölsku heiti á samfélagsmiðlinum.

Þegar kaupandinn reynir svo að ná fram rétti sínum eyði svindlarinn falska aðganginum eða loki á að kaupandi geti haft samskipti við hann. Lögregla segir góða reglu að greiða ekki fyrir nokkurn hlut fyrr en við afhendingu.