Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Lúla hreinsaður af ákærum og má bjóða sig fram

Mynd: EPA-EFE / EPA
Lúla, fyrrverandi forseti Brasilíu, hefur verið hreinsaður af ákærum um spillingu og má bjóða sig fram í forsetakosningum á næsta ári. Mál hans var sent aftur til áfrýjunarréttar. Forsetinn fyrrverandi heitir fullu nafni Luiz Inácio Lula da Silva en gengur jafnan undir nafninu Lula. Hann var sakfelldur fyrir spillingu og mútuþægni árið 2018 og hlaut 12 ára fangelsisdóm.

Sat inn í eitt og hálft ár

Lúla sat hálft annað ár í fangelsi en var sleppt þegar hæstiréttur Brasilíu ákvað að enginn sakborninga í spillingarmálinu skyldi hefja afplánun fyrr en dómur í áfrýjunarmálum lægi fyrir. Hæstaréttardómari hefur nú ógilt dóma yfir Lula og lýst yfir að hann hafi full pólitísk réttindi.

Átrúnaðargoð vinstri manna í Brasilíu

Lula var forseti frá 2003 til 2010 og nýtur verulegrar lýðhylli á vinstri væng stjórnmálanna.. Honum  var vel fagnað af stuðningfólki er hann var látinn laus og sagði þá að hann væri fullur af baráttuanda þrátt fyrir háan aldur, en Lúla er 75 ára. 

Segir ásakanir hafa verið til að koma í veg fyrir framboð

Lúla hefur sjálfur ætíð haldið fram sakleysi sínu og sagt ásakanir gegn sér hafa verið settar fram til að koma í veg fyrir framboð 2018. Þá var Jair Bolsonaro kjörinn og búist er við að hann bjóði sig aftur fram á næsta ári.

Líklegt að Lúla bjóði sig fram 2022

Fréttaskýrendur í Brasilíu telja nú afar líklegt að Lula bjóði sig fram gegn Bolsonaro Málið gegn Lula var hluti af umfangsmikilli spillingarrannsókn, sem nefnd var Bílþvottur. Það spratt af rannsókn á mútuþægni yfirmanna ríkisolíufélagsins Petrobras sem voru sakaðir um að hafa þegið fé af verktökum. Málið var afar umgangsmikið og náði til að minnsta kosti 11 ríkja í rómönsku Ameríku.