Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Hrollvekjandi og áleitin saga um alkóhólisma

Mynd: EPA / EPA

Hrollvekjandi og áleitin saga um alkóhólisma

09.03.2021 - 12:37

Höfundar

Skáldsagan Shuggie Bain, eftir Douglas Stuart, fjallar blátt áfram um alkóhólisma og meðvirkni frá sjónarhorni barns, segir Gauti Kristmannsson gagnrýnandi. „Sagan er svo áleitin og lifandi að ég spurði mig fljótlega hvort hún væri ekki sjálfsævisöguleg, það er svo mikið margt í henni, smáatriði sem manni fannst ósvikin og lifuð.“

Gauti Kristmannsson skrifar:

Booker verðlaunin eru meðal þeirra virtustu sem veitt eru á Vesturlöndum, og áreiðanlega þau virtustu fyrir bókmenntir frumsamdar á ensku, ásamt Pulitzer verðlaununum bandarísku. Það var því forvitnilegt að lesa nýjasta verðlaunaverkið eftir skoska höfundinn Douglas Stuart og það af ýmsum ástæðum. Í fyrsta lagi er þetta fyrsta bók hans, og það bók eftir mann sem er á fimmtugsaldri; vafalaust ekki oft sem það hendir. Í öðru lagi er þetta aðeins önnur bókin í 51 árs sögu verðlaunanna sem er eftir skoskan höfund, ótrúleg staðreynd þegar hugsað er til þeirrar hefðar sem skoskar bókmenntir búa að, alveg frá miðöldum, þegar John Barbour og Gavin Douglas gerðu garðinn frægan meðal margra annarra. Á átjándu öld áttu Skotar mest lesnu kvæði Vesturlanda, Kvæði Ossians, nítjánda öldin gaf þeim risann Walter Scott sem allir vildu herma eftir, líka Jón Thoroddsen, einnig áttu þeir Robert Louis Stevenson og marga aðra frábæra höfunda. Prófíllinn fór aðeins að lækka á tuttugustu öldinni, kannski vegna ofurþunga enskra bókmennta í háskólakerfinu sem hafði fátt eitt að segja um skoskar bókmenntir, nema þá í samhengi við þær ensku. Þriðja ástæðan er síðan sú að í upphafi virðist þetta vera nokkuð klassísk raunsæisbók um hina kúguðu verkalýðsstétt, viðfangsefni sem oft hefur verið skrifað um á Bretlandi öllu og miklu víðar.

Og vissulega er fyrirmyndin einn af helstu höfundum Skota á því sviði, James Kelman, að sögn Stuarts sjálfs, en hann fjallaði um skosku öreigastéttina í sínum bókum, en það sem meira er, hann notaði tungumál fólksins í sögum sínum og reis upp gegn hinni klassísku ensku sem nota átti í bókmenntum með stóru Béi. Hann er líka hinn handhafi Booker verðlaunanna frá Skotlandi, hlaut þau 1994. En þegar maður kemst lengra í sögunni áttar lesandinn sig á því að þetta er ekki stéttarsaga, heldur miklu fremur þroskasaga ungs drengs, í öreigastétt, vissulega, en það er einfaldlega bakgrunnur sögunnar, fátækrahverfi Glasgow borgar á Thatcher áratugnum illræmda. En hún er ekki aðeins þroskasaga drengsins, heldur líka saga um fall stoltrar konu, í þessu umhverfi atvinnuleysis, ofbeldis, nauðgana og fyrst og fremst drykkjuskapar. Þetta er saga um alkóhólisma og meðvirkni, en sögð blátt áfram, mest frá sjónarhóli drengsins, sem þekkir ekkert annað, og berst lengi við drykkjuskapinn hjá móður sinni með fullkominni og sársaukafullri meðvirkni.

Söguefnið er hrollvekjandi, en höfundi tekst að vekja hluttekningu flestra lesenda, svo mikið má sjá af ritdómum um bókina, persónurnar eru ljóslifandi og við skiljum þær allar einhvern veginn, allt frá karldrullusokkunum til saklausra barna, frásagnarhátturinn lætur persónurnar dæma sig sjálfar með gerðum sínum og í tilfelli Agnesar Bain, móður drengsins, Shuggies, þá finnum við rækilega til með henni í harmleik hennar, sem líka er klassískur fyrir ofdrambið, sem í raun og veru er bara sjálfsvirðing tætt sundur í varnarhroka alkóhólistans. Sagan spyr líka áleitinna spurninga um foreldrahlutverkin, feður sem fara og mæður sem drekka eða sóa bótafé sínu í bingóspil. Og bakgrunnurinn er hinn ömurlegi aðbúnaður fátæks fólks sem er að missa vinnuna í hrönnum í hagræðingarátökum thatcherismans.

Sagan er svo áleitin og lifandi að ég spurði mig fljótlega hvort hún væri ekki sjálfsævisöguleg, það er svo mikið margt í henni, smáatriði sem manni fannst ósvikin og lifuð, einhvern veginn, og það kom á daginn við stutta rannsókn að höfundurinn hefur vissulega reynt að vera barn drykkjusjúkrar móður í fátækrahverfum Glasgow. En hann komst á legg þótt hann hafi misst hana aðeins sextán ára, eins og drengurinn í sögunni, hann varð textílhönnuður í New York með góðum árangri, og skrifaði nú loks sína fyrstu skáldsögu í anda tímans, við þekkjum jú Knausgaard; hann komst sem sagt frá öreigastéttinni yfir í hina alræmdu millistétt. Hann ræddi það í viðtali, sá ég á netinu, að ein hans helsta eftirsjá hefði verið, að eftir að hafa alist upp í sárri fátækt hafi hann þurft lyfta sér upp í millistéttina til að geta sagt verkalýðssögu. Það gerir þessa sögu ekkert ósannari, hún nístir alveg inn að beini í látleysi sínu um leið og höfundur sýnir góð tök á stílnum með áhugaverðri blöndu af mállýsku Glasgow og ensku drottningar.

Hugsanlega hefur sú staðreynd að höfundurinn er samkynhneigður, eins og drengurinn í sögunni, gert honum kleift að komast út fyrir þann hefðbundna ramma sem uppruni hans hefði getað smíðað utan um hann. Hann segir reyndar líka að hann hafi dreymt um að lesa enskar bókmenntir í háskóla, en verið ráðið frá því af kennara einum, einmitt vegna uppruna síns. Hann lærði því textílhönnun eins og fyrr sagði, en nú er komin út stór bók, 430 síðna fjölskyldu- og þroskasaga, sem stendur mörgum þeirra bestu á sporði; málið er bara að það er ekki aðallinn eða millistéttin sem er að kljást við skapgerðarbresti sína, heldur sárafátækt verkafólk, og það sem máli skiptir í sögunni eru einmitt samskipti þeirra, ástir og grimmd. Og af því þetta fólk er að berjast fyrir lífi sínu dag frá degi, verður það margfalt merkilegra heldur en til dæmis óumræðilega leiðinlegt og húmorslaust kóngafólkið sem við höfum fengið að sjá í sjónvarpsþáttunum um bresku krúnuna. Ég man ekki til þess að hafa horft fyrr á breska seríu þar sem manni stökk ekki einu sinni bros allan tímann. Hér er vissulega harmur, eymd og volæði, en einnig húmor og íronía, sem að mínu mati réttlætir harmsögur, eins og klassíkerarnir vissu með skoplétti sínum þegar þeir tóku þær fyrir.

Það er líka svo miklu fleira en lífsbaráttan ein sem fjallað er um. Við skynjum meðfram frásögninni hina eilífu togstreitu milli katólskra og mótmælenda, og samt blandast þessir hópar í lægstu stéttinni í einhverri furðulegri symbíósu, sem var athyglisverð fyrir mér, sem búið hef í Skotlandi og yfirleitt fundist þessir hópar blandast jafn illa og olía og vatn. En það er bara aldrei svo einfalt í lífinu og þótt sögupersónur séu meðvitaðar um muninn og grípi til aðskilnaðartugga, þá ná þær stundum saman, með góðu eða illu.

Enskan í bókinni er áhugaverð og safarík, samtölin eru á mállýsku oftast nær, og það er líka töluvert um skosk orð og orðatiltæki í öllum textanum, sum orðanna eiga rætur að rekja til norrænna mála eins og þegar tala er um „bairns“ og fleira í þeim dúr. Þetta er þó ekki eins töff að lesa og Trainspotting eftir Irvine Welsh, þar sem slangur dópistanna bættist við mállýskuna, en hefur svipuð áhrif, held ég, við erum færð úr setustofum enska bókmenntaklúbbsins á götur borganna í norðri. Og það er mikil bókmenntanautn að komast undir yfirborð borgar sem okkur Íslendingum finnst við þekkja svo vel, en sjáum við lesturinn að við þekkjum ekki neitt. Það eitt er vel þess virði að lesa í þessari bók, en það einungis brot af öllum fínu kolamolunum sem fáum út úr henni.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Átakanleg umfjöllunarefni lituð húmor og mannskilningi

Bókmenntir

Frumraun Douglas Stuart fær Booker bókmenntaverðlaunin