Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Hestafólk varað við alvarlegum sjúkdómi í hrossum

09.03.2021 - 17:37
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Alvarlegur smitsjúkdómur af völdum hestaherpes-veiru kom upp í febrúar á stóru hestamóti í Valencia á Spáni. Veiran smitar ekki menn en veldur heilabólgu og lömun í hestum. Íslenskt hestafólk er hvatt til að fara að ströngum reglum til varnar smitsjúkdómum.

Veiran veldur ævilöngu smiti þegar hún tekur sér bólfestu í hrossum og getur meðal annars borist með fólki, fatnaði og búnaði. Mikil hætta er á að veiran magnist upp þar sem fjöldi hesta hefst við í sama rými. 

Á vef MAST er brýnt fyrir íslenskum hestamönnum, sem halda utan eða taka á móti hestaferðamönnum hingað, að hafa hugfast að innflutningur á notuðum hestavörum er bannaður.

Jafnframt má ekki taka notaða reiðhanska með sér til landsins, reiðfatnað þarf að þvo og þurrka fyrir komuna til landsins ásamt því sem sápuþvo skal reiðskó og hjálma, þurrka og úða með sótthreinsiefni.

Alþjóða hestasambandið (FEI) staðfestir að átta hross hafi drepist af völdum veirunnar á Spáni og tvö í Þýskalandi. Óstaðfest er að veiran hafi orðið fleiri hestum að fjörtjóni en vitað er að fjöldinn allur er fárveikur.

Fyrstu einkenni sjúkdómsins eru hiti og kvef. Veiran berst með hvítfrumum í blóðið og í alvarlegustu tilfellum þaðan í miðtaugakerfið, heila og mænu. Dýrin verða þá óstöðug, fyrst á afturfótum, uns þau lamast og leggjast fyrir.

Álitið er að um 1.500 hross af mótinu í Valencia séu á ferð um Evrópu á heimleið. Þau þurfi að nema víða staðar til að hvílast og því fjölgi þeim svæðum þar sem hætta er á smiti stöðugt og erfitt sé að ná fullkominni yfirsýn í málinu. 
 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV