Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Hátt í 30 í sóttkví eftir að smitaður fór í World Class

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Hátt í þrjátíu manns, sem fóru í tækjasal líkamsræktarstöðvarinnar World Class í Laugardal, hafa verið sendir í sóttkví eftir að í ljós kom að þeir höfðu verið í sama hólfi og einstaklingur sem greindist með kórónuveiruna. Þetta staðfestir Björn Leifsson, framkvæmdastjóri World Class. Hann segir að viðkomandi hafi verið skráður í tíma fyrir hádegi á föstudag og þeir sem voru í því hólfi á sama tíma hafi fengið skilaboð um að fara í sóttkví.

Stífar reglur gilda fyrir þá  sem sækja sér hreyfingu í World Class og öðrum líkamsræktarstöðvum. Fólk verður að skrá sig í tíma og viðskiptavinir geta aðeins bóka einn tíma á dag. Mest mega 50 vera í hverju hólfi og fólk verður að vera með sótthreinsibúnað og vera með grímur þar til tími þeirra hefst. 

Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, segir í samtali við fréttastofu að eftir daginn verði á annað hundrað manns í sóttkví. Þeir voru um hundrað eftir daginn í gær.

Þegar hefur komið fram að þrjátíu starfsmenn Hagkaups hafi þurft að fara í sóttkví eftir að samstarfsmaður þeirra greindist með COVID-19 og tíu starfsmenn Pizzunnar eru í sóttkví eftir sendill hjá fyrirtækinu greindist jákvæður.

Ljóst er að yfirvöld taka þessi nýju smit alvarlega en þau eru sennilega öll með hið svokallaða breska afbrigði. Það afbrigði er talið meira smitandi og hefur keyrt áfram kórónuveirufaraldurinn á meginlandi Evrópu. Þannig hefur öllum gestum á tónleikum Víkings Heiðars í Hörpu föstudagskvöldið 5. mars verið boðið að koma í aðra sýnatöku á fimmtudag. 

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, hefur sagt of snemmt að tala um fjórðu bylgjuna en þetta sé vissulega hópsmit. Ekki verði þó slakað mikið á takmörkunum innanlands þegar núverandi reglugerð fellur úr gildi í næstu viku.

Ef marka má covid.is virðast smitin bundin við höfuðborgarsvæðið , Suðurnes og Suðurland en enginn er í einangrun í öðrum landshlutum. Tveir eru í sóttkví á Norðurlandi eystra, einn á Vestfjörðum og einn á Vesturlandi.

Tveir greindust með smit eftir sýnatökur í gær og voru þeir báðir utan sóttkvíar.  

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV