Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Getur gosið án fyrirboða

Mynd: RÚV/Sigurður / RÚV/Sigurður
Kvikan sem streymir upp í kvikuganginn milli Keilis og Fagradalsfjalls jafnast á við allt að fjórfalt meðalrennsli Elliðaánna. Jarðeðlisfræðingur segir eldgos ekki þurfa að hafa skýra fyrirboða.

Vísindamenn fylgjast grannt með kvikuganginum sem myndast hefur milli Keilis og Fagradalsfjalls, en hann hefur stækkað og tútnað út undanfarnar vikur.

Kvikan streymir upp í ganginn

Kvikugangurinn er ekki nema um einn metri á breidd en um 7 kílómetra langur og hefur undanfarnar tvær vikur færst tvo til þrjá kílómetra til suðurs eftir því sem kvikan hefur streymt upp í hann. Á botni kvikugangsins, á um fimm kílómetra dýpi, er rás og þaðan streyma um 15 til 20 rúmmetrar á sekúndu upp á við, en það er á við þrefalt til fjórfalt meðalrennsli Elliðaánna. Talið er að kvikugangurinn sé kominn um einn kílómetra frá yfirborði jarðar sunnan megin, en um tvo kílómetra við Keili. Hraunið sunnan megin er sömuleiðis heitara og því líklegra að þar muni kvikan leita upp á yfirborðið. [Grafík]

Mesta virknin á syðri endandum

Haldi kvika áfram að streyma inn í kvikuganginn segir sig sjálft að hann mun stækka og leitar kvikan þangað sem fyrirstaðan er minnst. Líklega heldur hann þá áfram að stækka til suðurs eða kvikan leitar upp á yfirborðið. „Mesta virknin hefur verið við suðurendann á honum og þar kannski þar sem er virkast. Hugsanlega er kvikan byrjuð að storkna í norðurendanum á ganginum og ólíklegra að hún leiti þar upp á yfirborð. Þannig að það er suðurendinn sem verið er að horfa á, út af jarðskjálftavirkninni og líka sýna jarðskorpuhreyfingar að þar hafa verið mestu breytingarnar síðustu dagana.,“ segir Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands.

Gæti svipað til Fimmvörðuháls

Komi til eldgoss segir Freysteinn að það geti orðið álíka að stærð og eldgosið á Fimmvörðuhálsi og byggir hann það á því kvikustreymi sem rennur upp í kvikuganginn. Í raun getur það gerst hvenær sem er og án mikilla fyrirboða. „Þar sem hún er komin niður á þetta, á kannski bara kílómeter upp á yfirborð þá má búast við því að það verði kannski ekki skýr merki, ekki skýrir forboðar fyrir þá breytingu að komast upp á yfirborðið. Litlir skjálftar, lítill óróapúls og það gæti verið komið gos nánast með mjög litlum fyrirvara held ég,“ segir Freysteinn.