Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

„Enginn ímyndar sér bíl koma á fullri ferð á leiksvæði“

09.03.2021 - 18:09
Mynd: Guðmundur Bergkvist / rúv
Mikil mildi þykir að ekki fór verr þegar mannlaus bíll rann niður brekku og lenti á rólu við fjölbýlishús í Áslandshverfi í Hafnarfirði síðdegis á sunnudag. Tveggja ára drengur, sem varð undir bílnum, var í dag útskrifaður af gjörgæslu. Faðir drengsins segir kraftaverk að hann hafi ekki slasast alvarlega.

Verið var að halda upp á afmæli í húsinu og því voru mörg börn að leika sér á svæðinu andartaki áður en bíllinn skall á fleygiferð á róluna. 

Bílnum var lagt í götu talsvert fyrir ofan róluna meðan ökumaðurinn brá sér frá í örskamma stund, en gleymdi að setja í handbremsu með þeim afleiðingum að bíllinn rann af stað.

Barnið var með meðvitund allan tímann

Garðar Ingi Jónatansson, tveggja ára drengur, var í rólunni og varð undir bílnum. Fimm ára systur hans tókst að forða sér. Mörg vitni voru að atvikinu og afmælisgestir og íbúar í húsinu hlupu til.  Saman tókst þeim að lyfta bílnum ofan af barninu á tæpri mínútu. 

„Þegar ég sé þetta og kem að þessu er ekkert annað sem fer í gegnum hugann nema bara að bjarga barninu, tékka á barninu. En hann er grátandi allan tímann, svo það gaf manni von,“ Jónatan Ingi Jónsson, faðir Garðars Inga. 

Úrskrifaður af gjörgæslu í dag 

Fyrir tilviljun voru læknir og björgunarsveitarmaður á staðnum sem hlúðu að drengnum þar til sjúkrabíll flutti hann á slysadeild.  Fljótlega varð ljóst að Garðar Ingi slapp ótrúlega vel. Hann var í dag útskrifaður af gjörgæslu og dvelur á barnaspítala Hringsins með foreldrum sínum. 

„Hann er með sprungu fyrir ofan vinstra eyra sem liggur niður fyrir augað sem mun bara gróa. Þetta er algjört kraftaverk. Það er margbúið að segja það við okkur að þetta sé eiginlega bara kraftaverk,“ segir Jónatan Ingi.

Atvikið gríðarlegt sjokk

Slysið var mikið áfall fyrir fjölskylduna sem þau vinna nú úr. Þau eru þakklát fyrir að ekki fór verr og eru ekki í leit að sökudólgum. 

„Þetta var gríðarlegt sjokk. Maður er svona aðeins að róast niður núna en þetta var svakalegt. Ég held fólk, þegar það sér leiksvæði, það ímyndar sér ekki bíl koma á fullri ferð á leiksvæðið en það gerðist þarna. Þetta voru mannleg mistök, það gera allir mannleg mistök,“ segir Jónatan Ingi.

Farinn að sparka í bolta og leika sér

Garðar Ingi litli ber sig vel og er spenntur að komast heim að sögn föður hans.

„Hann er byrjaður að leika sér á fullu, hálffeginn að vera laus af gjörgæslu þar sem hann var fastur í rúmi. Þannig að hann er kominn hingað í gott umhverfi, sparkar í boltann hérna uppi og leikur sér þannig það eru bara allir ótrúlega ánægðir.“

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV