Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Ekki hægt að bjóða krökkunum upp á þetta

Mynd með færslu
Samræmd próf. Mynd úr safni. Mynd: RÚV
Það voru allir að detta út, segja nemendur í níunda bekk sem lentu í því í samræmdu prófi í íslensku í gær að prófakerfið hrundi. Umboðsmaður barna segir ekki hægt að bjóða börnum upp á þessar aðstæður. Forstjóri Menntamálastofnunar segir að stofnunin hafi ítrekað bent menntamálayfirvöldum á að prófakerfið anni ekki þessu verkefni og hefur sent menntamálaráðherra tólf minnisblöð undanfarin ár þar sem knúið er á um breytingar.

Prófið er rafrænt og átti að hefjast klukkan 8:30 í gærmorgun. Strax þá komu upp vandkvæði við fyrirlögnina, nemendur gátu ekki skráð sig inn í próftökukerfið og í sumum skólum var prófinu frestað um korter. Þegar nemendurnir komust inn í kerfið duttu þeir inn og út úr prófinu, en samkvæmt upplýsingum frá Menntamálastofnun gátu um 3.500 nemendur af rúmlega 4.000 lokið því og þeir ráða hvort þeir taka það aftur á næstu vikum. 

Díana Björg Guðmundsdóttir í 9. bekk Grunnskólans í Borgarnesi segir að spjaldtölvurnar, sem nemendurnir tóku prófin á, hafi sífellt verið að frjósa. 

„Við duttum út alveg nokkrum sinnum og við þurftum að skipta um i-pada.“ Varstu búin að undirbúa þig vel fyrir prófið?  „Já, ég var búin að læra heima í marga klukkutíma.“ Hvernig finnst þér að þurfa að taka prófið aftur eftir einhverja daga? „Ég er frekar svekkt yfir þessu,“ segir Díana.

„Það voru margir sem voru að reyna að komast inn en komust ekki inn strax,“  segir Sóley Arna Arnarsdóttir í 9. bekk í Víðistaðaskóla í Hafnarfirði. „En síðan komust allir inn í bekknum mínum. Það voru eiginlega allir að detta út og inn, sumir voru í hálftíma að reyna að komast aftur inn eftir að þeir duttu út.“

Nemendur í 9. bekk Áslandsskóla í Hafnarfirði hafa nú hafið undirskrifasöfnun þar sem þeir skora á menntamálayfirvöld að prófin verði ekki haldin. Salvör Nordal umboðsmaður barna segir ekki hægt að bjóða börnum upp á að taka próf við þessar aðstæður.

„Það er algjörlega nauðsynlegt fyrir menntamálaráðuneytið að taka af skarið og tryggja fullnægjandi prófakerfi eða bara fella niður þessi samræmdu próf,“ segir Salvör.

Hún segir talsvert um að börn í 9. bekk og foreldrar þeirra hafi haft samband við embættið vegna prófanna. „Við erum búin að heyra frá börnum og foreldrum og það er augljóst að það hefur verið mjög mikil spenna í kringum þessi próf. Nemendur hafa verið að undirbúa sig í langan tíma og vilja auðvitað taka þau á þeim tíma sem þau eru sett á en ekki fresta þeim um einhvern óákveðinn tíma. Þannig að þetta fyrirkomulag gengur ekki upp.“

Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar, segir að kostnaðurinn við nýtt prófakerfi hafi verið metinn á 150 milljónir. Stofnunin hafi ítrekað bent Menntamálaráðherra á annmarka kerfisins. „Við höfum sent líklega tólf  minnisblöð til ráðuneytisins þar sem við erum að benda á að það þurfi að bregðast við varðandi prófakerfið. Síðast fengum við þau viðbrögð að það yrði ekkert nýtt prófakerfi. Það var bara núna í febrúar.“

Er hægt að bjóða krökkunum upp á þetta? „Það finnst okkur ekki,“ segir Arnór.