Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Vilja opna nýju stólalyftuna í Hlíðarfjalli fyrir helgi

08.03.2021 - 14:42
framkvæmdir við nýja stólalyftu í Hlíðarfjalli sept 2020
 Mynd: Úlla Árdal - RÚV
Stefnt er að því að taka nýju stólalyftuna í Hlíðarfjalli í notkun fyrir helgi. Lyftan er tilbúin og verður formlega sett í gang þegar veður leyfir. Þetta segir Halla Björk Reynisdóttir, formaður stjórnar Hlíðarfjalls.

„Þetta er að bresta á“

Nýja stólalyftan í Hlíðarfjalli, sem margir skíðamenn hafa beðið eftir með óþreyju, verður tekin í gagnið á allra næstu dögum. Formaður stjórnar Hlíðarfjalls segir að nú sé beðið eftir rétta augnablikinu til að opna mannvirkið formlega. „Við erum að stefna á að opna hana fyrir helgina, það er fundur hjá stjórninni á morgun þar sem við ákveðum hvaða dagur verður fyrir valinu. Það fer aðeins eftir veðri og skyggni en þetta er að bresta á,“ segir Halla Björk.

Samið um verkefnið 2017

Sumarið 2017 gerðu Akureyrarbær og Vinir Hlíðarfjalls samning um kaup á nýrri stólalyftu í fjallið. Samningurinn fól í sér að samtökin sæju um kaup og uppsetningu og bærinn áætlaði svo að taka mannvirkið á leigu í 15 ár. Tveimur mánuðum síðar var tilkynnt á heimasíðu Samherja að fyrirtækið hefði ákveðið að gefa samtökunum lyftuna og greiða fyrir flutning hennar til landsins.

Sjá einnig: Akureyrarbær semur um kaup á nýju stólalyftunni

Bærinn kaupir lyftuna

Í byrjun árs var greint frá því að bærinn hefði horfið frá áætlunum um leigu og fest kaup á lyftunni. „Það þótti bara skynsamlegt af mörgum ástæðum að kaupa hana í staðinn fyrir að leigja hana 15 ár. Bæjarfélagið getur náttúrlega fjármagnað sig betur en kannski einhver annar aðili. Það kom eitthvað svona smá hökt í fjármögnunina hjá þeim en sko það tengist óbeint og beint. Við bara skoðuðum málið og þetta þótti skynsamlegast að gera,“ sagði Halla Björk Reynisdóttir, formaður stjórnar Hlíðarfjalls, í samtali við fréttastofu þegar sagt var frá kaupunum.  

Langt á eftir áætlun

Upphaflega átti lyftan að vera tilbúin í desember 2018 og oft hefur verið sagt frá væntanlegri opnun í fjölmiðlum. Ýmsar tafir hafa þó orðið á framkvæmdinni og reyndist hún umfangsmeiri en reiknað var með í upphafi. Deilur við verktaka, veður og faraldurinn eru meðal skýringa sem gefnar hafa verið á töfunum.

Mynd með færslu
 Mynd: Hlíðarfjall
Nýja lyftan flytur fólk upp í meira 1.000 metra hæð