Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Úrskurðaður í farbann fyrir árás á samstarfsmann

08.03.2021 - 20:45
Mynd með færslu
 Mynd: Landsréttur
Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Austurlands um farbann yfir karlmanni sem er grunaður um fólskulega árás á samstarfsmann sinn. Hann er talinn hafa kýlt kollega sinn ítrekað í andlitið. Lögreglan á Austurlandi óttast að maðurinn reyni að komast úr landi. Hann sé nú þegar kominn til Suðurnesja ásamt félaga sínum og hafi greint frá því að þeir ætli að yfirgefa Ísland á næstu dögum.

Fram kemur í úrskurði héraðsdóms að vinnuveitandi mannanna hafi haft samband við lögreglu og tilkynnt árásina.   Sá sem ráðist var á vildi í fyrstu ekki fara til lögreglunnar en lét svo til leiðast.

Hann greindi lögreglu frá því að árásarmaðurinn hefði komið á heimili hans ásamt félaga sínum. Hann hefði verið mjög ölvaður og með læti. Þeir hefðu hrint honum og árásarmaðurinn síðan tekið að kýla hann í andlitið með krepptum hnefa og hótað að drepa hann. Eiginkona hans hefði komið og öskrað á mennina og þeir þá haft sig á brott.

Hann taldi árásina mega rekja til ágreinings á vinnustað. Fram kemur í úrskurðinum að hann hafi verið fluttur með sjúkraflugi til Akureyri þegar í ljós kom að hann var með beinbrot í vinstri augntóft og kinnholu. 

Árásarmaðurinn hafði aðra sögu að segja. Hann hefði vissulega farið að heimili mannsins en gert það til að spyrja af hverju hann væri alltaf að öskra á sig í vinnunni. Við þetta hefði maðurinn orðið hávær og hótað honum lífláti,  farið inn í annað herbergi og komið aftur fram með stóran nagla, líkan hnífi. Hann hefði ekki hótað manninum og félagi hans hefði ekkert gert.

Vinur árásarmannsins tók undir þessa frásögn og sagði eiginkonuna ekki hafa komið fyrr en allt var yfirstaðið. Hann hefði sjálfur reynt að stilla til friðar.

Lögreglustjórinn á Austurlandi segir í greinargerð sinni að ákæra verði gefin út á næstu dögum og því sé nauðsynlegt að tryggja veru árásarmannsins á landinu. Bæði Landsréttur og héraðsdómur féllust á kröfuna og var hann því úrskurðaður í farbann til 30. mars.   

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV