Gagnkynhneigða normið, eða heteronormativity eins og það kallast á ensku er að gera ráð fyrir því að öll séu gagnkynhneigð. Skilaboð um gagnkynhneigða normið fáum við frá unga aldri. Sem dæmi má nefna Disney-myndir. Þar er sagan oft á þá leið að prinsessa verður ástfangin af prinsi. Tvær prinsessur verða aldrei ástfangnar hvor af annarri og almennt er lítill sem enginn fjölbreytileiki í fjölskyldumynstrum.
Skortur á fyrirmyndum og fræðslu getur haft þau áhrif að fólk þorir ekki að „koma úr skápnum“ því það heldur að því verði útskúfað. Það upplifir fordóma fyrir sjálfu sér og það sem verra er, uppgangur haturs og þekkingarleysis gagnvart hinsegin málefnum leiðir til þess að hinsegin fólk verður fyrir miklu ofbeldi og er jafnvel svipt mannréttindum sínum. Ingileif nefnir dæmi um að slíkt hafi nýlega gerst í Ungverjalandi og Póllandi.
Ingileif og Indíana hafa báðar tekið eftir breytingum í samfélaginu hér á Íslandi í vinnu sinni með ungmennum. Ungmenni eru orðin óhræddari við að ögra gagnkynhneigða norminu og kynjatvíhyggjunni og skilgreina sig utan þeirri. Þau halda jafnvel skilgreiningum á sér opnum og vilja ekki setja neitt í fastar skorður.
Indíana Rós Ægisdóttir og Mikael Emil Kaaber ræddu við Ingileif Friðriksdóttur um hinsegin málefni í Klukkan sex. Þátturinn er aðgengilegur á ungrúv.is og öllum helstu hlaðvarpsveitum.