Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Um 2.800 skjálftar á sunnudag - kvöldið rólegt

Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofa Íslands - RÚV
Eftir viðburðaríka nótt með mörgum öflugum skjálftum á umbrotasvæðinu á Reykjanesskaga fækkaði stærri skjálftum eftir því sem leið á sunnudaginn. Smáskjálftar hafa hins vegar haldið áfram linnulaust og alls hafa orðið um 2.800 skjálftar á svæðinu. Elísabet Pálmadóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands sagði rétt fyrir miðnæturfréttir að kvöldið hafi verið tiltölulega rólegt á umbrotasvæðinu.

Frá því fyrir klukkan þrjú í dag mældust aðeins þrír skjálftar þrír eða stærri. Sá fyrsti mældist 4,2 klukkan rétt rúmlega fimm, annar, sem mældist sléttir þrír, varð skömmu fyrir klukkan átta í kvöld og sá þriðji, 3,5 að stærð, varð stundarfjórðung fyrir tíu. Allir áttu þeir upptök sín innan við tvo kílómetra frá Fagradalsfjalli, á fjögurra til fimm kílómetra dýpi.

Heildarfjöldi skjálfta, frá miðnætti til miðnættis, var sem fyrr segir um 2.800, sem er svipað og sólarhringinn þar á undan. Elísabet segir engan óróa mælast, virknina að mestu bundna við svæðið frá Fagradalsfjalli að Þorbirni, og ástandið í kvöld ekki ólíkt því sem verið hefur lengst af hrinunnar.