Þurfti að fleygja systur brúðgumans úr athöfninni

Mynd: Hannes Sasi Pálsson / Aðsent

Þurfti að fleygja systur brúðgumans úr athöfninni

08.03.2021 - 16:00

Höfundar

„Hún setur upp heyrnartól til að hlusta á tónlist, snýr baki í athöfnina og kveikir sér í sígó,“ rifjar Hannes Sasi Pálsson eigandi Pink Iceland ferðaskrifstofunnar um systur brúðguma sem sýndi það í verki í athöfninni hve illa henni væri við brúðina. Þegar gleðispillirinn var á bak og brott gekk athöfnin að óskum eins og hin 120 brúðkaupin sem Hannes hefur verið viðstaddur í starfi sínu.

Hannes Sasi Pálsson er einn stofnandi ferðaskrifstofufyrirtækisins Pink Iceland, sem tekur mið af á þörfum og menningu hinsegin fólks. Fyrirtækið hefur í kjölfar aðgerða á landamærum og lokana einbeitt sér að framleiðslu á húðvöru sem er unnin úr iðnaðarhampi sem seld er í nýrri búð þeirra Æsir Iceland CBD. Hannes segir að fyrirtækið sé honum sem fjölskylda og að saman myndi allir sem að því koma kærleiksríkt og mikilvægt samfélag. Í Segðu mér á Rás 1 sagði Sigurlaugu Margréti Jónasdóttur frá ævintýrum sínum.

Fattaði upp á tvöföldum klósettsturtunarstillingum á undan Gustavsberg

Frá því hann var ungur hefur hann verið hugmyndaríkur og skapandi. „Ég var alltaf að fá hugmyndir og teikna upp hugmyndir. Þegar ég var örugglega sex ára eða níu teiknaði ég upp hugmynd að rosalega sniðugu klósettsturtunarkerfi þar sem voru tveir takkar, einn fyrir lítið og hinn fyrir stórt,“ segir Hannes sem vísar þá í tvo valmöguleika á niðursturtunarkrafti, eins og er á mörgum klósettum í dag. „Það var ekki til á Íslandi þá, það var bara einhver Gustavsberg-tappi sem maður togaði upp. En svo mörgum árum seinna sá ég þetta. Ég var miður mín að hafa ekki komið með þessa hugmynd.“

Sem barn var hann augljóslega uppátækjasamur en skrýtinn og einrænn að eigin sögn. „Ég var rosalega duglegur, alltaf að reyna að klára heimavinnuna á undan öllum hinum. Rétti upp hendi og sagði: Ég er búinn með heimavinnuna mína, má ég fara fram að semja leikrit fyrir bekkinn?“ rifjar hann upp og hlær. „Rosalega óþolandi týpa.“

„Þær höfðu hugrekkið og drógu mig með“

Hugmyndin að klósettsturtunarstillingum kom frá ungum Hannesi en hugmyndin að því að stofna fyrirtækið var frá Evu Maríu og Birnu, hjónum og meðeigendum í fyrirtækinu. „Ég fékk að vera með og vissulega hafði ég mikil áhrif á hvernig við þróuðum fyrirtækið og alla þá frumkvöðlastarfsemi sem við höfum verið í, en þær höfðu hugrekkið og drógu mig með.“

En hugrekki þeirra Birnu og Evu er smitandi og Hannesi hefur með tímanum tekist að tileinka sér það. „Fyrsti þorði ég aldrei að koma fram fyrir hönd fyrirtækisins, vildi algjörlega blandast í bakgrunninn. Var með svo mikinn félagskvíða og ég roðnaði svo mikið, það hefur alltaf verið minn akkilesarhæll.“

„Hélt ég þyrfti að láta sprauta mig niður ég var svo stressaður“

Hann minnist þess að hafa verið beðinn um að tala fyrir hönd Pink Iceland á rótarýfundi þar sem hann þekkti engan og honum varð ekki um sel. „Ég hélt ég þyrfti að sprauta mig niður ég var svo stressaður.“ En í dag er öldin önnur. „Ég get staðið fyrir framan 500 manns og talað um fyrirtækið af stolti og hugrekki. Ég roðna einstaka sinnum enn,“ en í dag er það orðið sjaldgæft og hann getur hlegið að því. „Þá er það bara fyndið því ég er nógu hugrakkur til að segja: Ég roðna og það gerist stundum. Og það er allt í lagi.“

Presturinn sagði að alnæmi væri refsing guðanna

Hannes segir að það hafi alls ekki verið auðvelt að koma út úr skápnum þegar hann loksins steig skrefið, ekki síst vegna eigin fordóma. Fjölskyldan hans er mjög trúuð og hann var með sterka barnatrú. Í fermingarfræðslu minnist hann þess að hafa fundið fyrir gífurlegum vanmætti og minnimáttarkennd þegar presturinn „útskýrði fyrir mér að alnæmi væri refsing guðanna við hommaskap. Það hjálpaði sannarlega ekki og hræddi mig ógurlega,“ segir hann. „Ég bar mikið traust til trúar og amma mín, sem var bara búin til úr manngæsku og góðum hlutum, var ofsalega trúuð. Svo ég var hræddur um að valda þeim öllum vonbrigðum.“

Þegar hann loksins kom út fyrir móður sinni tvítugur hreytti hann því í hana að hann væri hommi og skellti hurðinni á eftir sér, „er alveg brjálaður og held að heimurinn sé á móti mér,“ segir Hannes. Móður hans var afar brugðið og fór að gráta.

Mynd með færslu
 Mynd: Hannes Sasi Pálsson - Aðsent
Pink Iceland teymið hefur skipulagt brúðkaup og grátið með fólki frá öllum heimshornum.

„Ég er bara hrædd um að heimurinn verði vondur við þig“

Þegar hann ræddi næst málið við móður sína útskýrði hann fyrir henni að ekkert hefði breyst og hann væri enn sami maðurinn þó hann væri samkynhneigður. Svar hennar var mikill léttir, hún grét ekki örlög sín yfir að sonur hennar væri hommi og dæmdi hann aldrei. „Hún svaraði: Ég veit það ástin mín. Ég er bara svo hrædd um að heimurinn verði vondur við þig. Svo það var ekki fordómana að finna þar, bara ástina, sko.“

En heimurinn hefur ekki verið neitt sérstaklega vondur við Hannes eftir að hann kom út úr skápnum, segir hann núna. „Ég lifi ákveðnu forréttindalífi, átti rosalega fína æsku og það var vel farið með mig,“ segir hann. Það fer þó í taugarnar á honum að það sé ekki alltaf tekið mark á sér. „Konur og hommar. Þegar við vorum að starta Pink Iceland var ekkert rosalega mikið verið að taka okkur alvarlega. En þetta er kannski líka hluti af þessu,“ segir Hannes. Hann hefur að vissu leyti vanist því að leggja meiri á sig en næsti maður. „Maður er alltaf að sanna sig, maður eyðir svo miklum tíma í að halda að maður væri verri, öðruvísi eða óþægilegur fyrir aðra.“

Sá mynd af litla frænda í Séð og heyrt og faðmaði hann

Hann stofnaði skemmtistaðinn Spotlight árið 1998 ásamt nokkrum félögum sínum og segir að þar hafi verið á ferðinni fyrsti hommaklúbburinn á Íslandi. Þeir héldu reglulega alræmd kvöld sem þeir kölluðu klámkvöld og á eitt slíkt mætti Hannes klæddur sem námuvinnumaður, ber að ofan í gallabuxum sem hann hafði klippt, með gulan námuvinnuhatt og makaður eins og hann væri skítugur. Mynd af honum birtist á fyrstu blaðsíðu í Séð og heyrt sem stórfjölskyldan rak augun í. „Það má segja að það hafi þannig séð eiginlega hjálpað mér út,“ segir Hannes glettinn.

Næst þegar hann hitti móðurbróður sinn vatt hann sé upp að Hannesi og sagði hafa séð mynd af honum í Séð og heyrt. „Svo faðmaði hnan mig og sagðist elska mig. Það var ótrúlega gott. Þannig voru flest viðbrögð.“

2021 átti að verða besta árið hingað til

Hugmyndin að baki Pink Iceland var að stofna hinsegin ferðaþjónustu og halda viðburði fyrir hinsegin fólk. Ferðaskrifstofan var stofnuð stuttu eftir að samkynja hjónabönd voru leyfð á Íslandi svo þau settu tilkynningu inn á síðuna um að samkynja pör gætu gift sig í ferðinni.

Viðbrögðin létu ekki á sér standa. „Það voru tvö þrjú brúðkaup á því ári, svo tvöfaldaðist það og svo fjórfaldaðist það. Við höfum mest verið með 140 brúðkaup á ári,“ segir Hannes. Og þegar allt er komið á fullt brestur á með heimsfaraldri. „Við sáum fram á besta ár sem við hefðum nokkurn tíma fengið. Við höfum aldrei skuldað mikið eða neitt en sáum fram á að mögulega fara í hagnað, þó þetta snúist reyndar meira um hugsjón en hagnað hjá okkur.“

„Allt í einu þurftum við að kveðja“

En árið reyndist allt öðruvísi en það sem þau höfðu ímyndað sér. „Þetta er umbúðalaust erfiðasta ár sem við höfum lifað sem fyrirtækjaeigendur,“ segir Hannes. „Þetta endar með að við erum með 95% tekjufall á einu ári, búin að þurfa að segja öllum upp og þetta er svo skrýtið. Þetta er svo súrrelískt því þetta er ekki bara vinnustaður heldur líka félagsheimili og sálfræðiskrifstofa og skemmtun. Það var bara gaman að mæta í vinnuna. Svo allt í einu þurfum við að kveðja alla og leggja fyrirtækið í hýði sem það er í núna.“

Krem úr kannabisplöntu

Fyrsta tilfinningin var mikil sorg en svo ákváðu þau að nýta tímann sem skapaðist og sköpunarkraftinn til góðs. „Við urðum einhvern veginn að halda í okkur lífinu og lífsneistanum,“ segir Hannes. Hópurinn hittist reglulega, drakk kaffi saman og ræddi hugmyndin og tóku svo ákvörðun um að hafa samband við hjón sem þau höfðu hjálpað við að giftast fyrir sex árum síðan og tjáðu þeim áhuga á að vinna saman í framtíðinni. „Ég segi bara: Hey, eigum við að starta fyrirtæki? Það er komið COVID og ykkur langar að gera eitthvað á Íslandi.“

Úr varð að þau hófu framleiðslu á húðvörum og opnuðu búð í móttöku Pink Iceland á tíu ára afmæli fyrirtækisins. Æsir Heilsa ehf. framleiðir hágæða CBD-vörur úr lítilli sameind úr kannabisplöntunni. „Fólk verður skolítið stressað þegar maður segir kannabisplanta en það er annað efni í henni sem veldur vímu og er ávanabindandi og ég þekki það minna,“ segir hann glettinn. „Það sem við erum að gera er að nota eiginleika þessarar plöntu í ofboðslega góða húðvörulínu.“

Plantan gefi kreminu roðaminnkandi áhrif, dragi úr fitu sem húðin framleiðir og bólgum. „Þessi aðferð var fyrst bara notuð í Kína fyrir tíu þúsund árum. Þetta er mörg þúsund ára gamalt,“ segir hann. „Það er falleg saga að baki, að guðirnir hafi gefið mannfólkinu eina plöntu sem átti að duga þeim í allt.“ Úr iðnaðarhampi séu líka vefuð föt. Hann er ræktaður á Íslandi og er ekki vímugefandi.

Giftu par sem mátti ekki vera saman í sínum heimabæ

Hannes bindur vonir við að þau í Pink Iceland geti bráðlega aftur boðið fólki til Íslands og farið að skipuleggja brúðkaup á ný þegar bólusetning færist í aukana hérlendis og úti í heimi. Hann fær aldrei leið á brúðkaupum. „Ég hef sjálfur persónulega verið viðstaddur 120 brúðkaup sem ég hef skipulagt og er enn að gráta.“ Honum eru minnisstæð mörg tárin, meðal annars þegar tvær rúmenskar konur sem gátu ekki opinberað ást sína í sínum heimabæ, komu til Íslands og giftu sig með Pink Iceland. „Þetta frelsi sem þær upplifðu, að mega gifta sig og leiðast út úr kirkju. Að finna þetta kærleiksríka viðmót frá prestinum sem gaf þær saman. Þetta er bara ómetanlegt. Ég hágrét.“

„Höfum lent í ófáum brúðartertuhremmingum“

Öll hjónin hafa verið afar sátt eftir vel heppnaðar athafnir þó auðvitað hafi gengið á ýmsu. „Við höfum lent í ófáum brúðartertuhremmingum, höfum keyrt með tertur út á land í þrjá tíma með allar rúður niðri til að hafa kulda í bílnum. Svo þarftu að bremsa og þá rennur efsti hlutinn af,“ segir Hannes kíminn.

Dró hana út úr brúðkaupinu og henti inn í bíl hjá ljósmyndaranum

Og það hefur enginn hætt við giftinguna þegar á hólminn er komið en hann hefur þurft að henda brúðkaupsgesti út. „Þá vorum við að gifta dásamlegt par, rosa skemmtilegt, nema að systir brúðgumans þoldi ekki mágkonu sína tilvonandi. Það var búið að vara mig við þessu og ég var bara: Já, já. Það er oft erfið fjölskyldudýnamík hjá sumum.“ En í miðri athöfn sér hann hvernig systirin snýr sér undan og gefur skít í það sem fram fer. „Hún setur upp heyrnatól til að hlusta á tónlist, snýr baki í athöfnina og kveikir sér í sígó,“ rifjar Hannes upp. „Ég dró hana út úr brúðkaupinu, henti henni í bíl hjá ljósmyndaranum Kristínu Maríu og sagði: Þú kemur ekki aftur í þetta brúðkaup.“

Öxl til að gráta á á tilfinningaríkum degi

Allt gekk að óskum eftir að systirin hafði yfirgefið herlegheitin og allir hafa þakkað Pink Iceland fyrir að vera til staðar á mikilvægri stund þar sem þau hafa gengið í öll hlutverk. „Það er mikilvægt fyrir okkur að vera með öxl til að gráta á og hugga hann því þetta er svo tilfinningaríkur dagur. Góður brúðkaupsskipuleggjandi er fullkominn starfsmaður því hann þarf að hafa svo mikla tilfinningagreind og mikla skipulagshæfileika á sama tíma. Íslenska meðvirknin kemur vel þar inn, við erum góð í tilfinningagreind,“ segir hann kankvís að lokum.

Sigurlaug Margrét Jónasdóttir ræddi við Hannes Sasa Pálsson í Segðu mér á Rás 1. Hér er hægt að hlýða á allt viðtalið í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Heyrir oft í símanum: „Pabbi koma heim“

Mannlíf

Rífur hjartað í tvennt að þurfa að hringja þetta símtal