Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Það er ljóst að EHF er komið í ákveðin vandræði“

Mynd: EPA / EPA

„Það er ljóst að EHF er komið í ákveðin vandræði“

08.03.2021 - 20:54
„Við lendum bara í því að flugin okkar eru ítrekað felld niður,“ segir Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, en leik Íslands og Ísraels í undankeppni EM karla í handbolta 2022 var frestað í dag. Leikurinn átti að vera í Tel Aviv á fimmtudaginn.

Verulegar ferðatakmarkanir eru til Ísrael en þetta er í annað sinn sem fresta þurfti leik liðanna sem átti upphaflega að fara fram síðastliðið haust.

„Við vitum bara hreinlega ekki hvert framhaldið verður. En það er ljóst að staða Ísrael er orðin þröng í riðlinum og EHF er komið á ákveðin vandræði og í erfiða stöðu því Ísraelar eiga fimm leiki eftir í þessari undankeppni,“ segir Róbert og bætir við að það gæti verið erfitt að klára keppnina í svokallaðir bubblu þar sem leikirnir í riðlinum yrðu kláraðir á sama stað. 

„Það væri bara svo mikið ójafnvægi. Við eigum til að mynda bara þrjá leiki eftir en Ísrael fimm. Þeir þyrftu því mögulega að spila á hverjum degi í fimm daga á meðan við fengum hvíldardaga. Það er erfitt að sjá það fyrir sér,“ segir Róbert en nánar er rætt við hann um framhaldið í spilaranum hér að ofan.

Tengdar fréttir

Handbolti

Landsleiknum við Ísrael frestað