Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sýn gæti fengið um sex milljarða fyrir óvirka innviði

08.03.2021 - 19:49
Mynd: RÚV / RÚV
Gengið hefur verið frá samningum um kaup erlendra fjárfesta á óvirkum farsímainnviðum Sýnar, að sögn forstjóra fyrirtækisins. Söluhagnaður gæti orðið meira en sex milljarðar króna.

Erlendir fjárfestar eru nú við það að ganga frá kaupum á óvirkum innviðum Sýnar, sem gerir síðan ráð fyrir að leigja þá af nýju eigendunum í tuttugu ár. „Þetta eru loftnet og turnar sem við erum að selja, ásamt húsum sem fylgja og því um líkt, en allir tæknibúnaður, ljósleiðari, rafkerfi, símsendarnir sjálfir og allt sem er tæknidrifið verður áfram í okkar eigu,“ segir Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar.

Samningarnir eru frágengnir, að sögn Heiðars, en hann bindur vonir við að skrifað verði undir þá í þessum mánuði. „Við myndum fá í handbært fé aukningu á yfir sjö milljarða strax þegar viðskiptin ganga í gegn. Við getum þá nýtt það fé bæði til að greiða niður skuldir sem við stofnuðum til þegar við keyptum fjölmiðlahlutann 2017 að stóru leyti og svo getum við farið miklu hraðar í uppbyggingu á fjarskiptakerfinu,“ segir hann.

Sýn hyggst með sölunni skilja samkeppnisreksturinn frá innviðarekstrinum. „Gagnvart okkar fyrirtæki og hluthöfum er betra að skipta þessu upp vegna þess að rekstrarvirðið er ekki nálægt því það sama og söluverðið til þessara alþjóðlegu aðila,“ segir Heiðar.

Samkvæmt heimildum fréttastofu eru sömu erlendu fjárfestarnir að semja við Nova, en hvers vegna eru erlend fyrirtæki að kaupa óvirka innviði íslenskra fjarskiptafyrirtækja og endurleigja þá?

„Nú þegar það má kannski segja að alþjóðlega séu vextir í útrýmingarhættu, það er mjög erfitt að fá örugga greiðslu vaxta til langs tíma, vextir í Bretlandi og Ameríku hafa verið neikvæðir, þá þurfa menn að finna einhverjar aðrar öruggar eignir, og þá eru svona innviðir mjög vinsælir,“ segir Heiðar.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV