Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Rofar til á bóluefnamarkaði

08.03.2021 - 17:00
Mynd: Almannavarnir / Almannavarnir
Forstjóri Lyfjastofnunar segir að með aukinni framleiðslugetu stærstu lyfjaframleiðendanna sé að rofa til á bóluefnamarkaðinum. Stutt sé í að markaðsleyfi verði gefið út fyrir bóluefni frá Janssen. Ísland hefur samið um kaup á bóluefni frá Janssen fyrir 235 þúsund manns. Aðeins þarf eina sprautu af Janssen-bóluefninu.

Aukinn kraftur virðist vera að færast í framleiðslu bóluefnis. Forseti framkvæmdastjórnar ESB gerir ráð fyrir að sambandið fái í sinn hlut tvöfalt fleiri bóluefnaskammta í næsta mánuði eða milljón skammta á mánuði á öðrum ársfjórðungi. Gangi þetta eftir koma um 80 þúsund skammtar til Íslands á mánuði á öðrum ársfjórðungi. Miðað við að sprauta þurfi tvisvar nægir þetta til að fullbólusetja 120 þúsund manns. Um 20 þúsund yrðu sprautaðir á viku þessa þrjá mánuði, apríl, maí og júní. Sé aðeins miðað við virka daga yrðu fjögur þúsund manns bólusettir á dag, fengju annað hvort fyrri eða seinni sprautu. Reyndar líða 12 vikur á milli bólusetninga með AstraZeneca.

Aukin framleiðslugeta

Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, er sammála því að það sé að rofa til í framleiðslu bóluefna við COVID-19. Hún vill þó benda á að þessi atburðaráðs hafi verið ótrúleg, að hægt hafi verið að þróa bóluefni, fá markaðsleyfi og byrja að framleiða það frá því að faraldurinn braust út fyrir einu ári.

„En það er verulega að rofa til núna með aukinni framleiðslugetu hjá þessum stóru aðilum, Pfizer og AstraZeneca sem eru komin með markaðsleyfi í mjög mörgum löndum. Að sjálfsögðu mun þetta hafa áhrif því það eru komnir fleiri framleiðslustaðir,“ segir Rúna.

Íslensk stjórnvöld hafa samið um kaup á bóluefni sem nægir fyrir um 630 þúsund manns. Íslendingar eru um 370 þúsund talsins. Þetta er nokkuð ríflegt því ekki er gert ráð fyrir að þeir sem eru yngir en 18 ára verði bólusettir, að minnsta kosti ekki til að byrja með.

Janssen fær brátt markaðsleyfi

Umsamdir skammtar frá Pfizer duga fyrir 125 þúsund manns, frá Moderna fyrir um 64 þúsund og skammtar frá AstraZenca fyrir 115 þúsund. Samningur hefur verið gerður við CureVac um bóluefni fyrir 90 þúsund manns en eitthvað er í land að það bóluefni verði að fullu samþykkt. Hins vegar hefur verið samið um kaup á bóluefni sem dugir fyrir 235 þúsund manns við lyfjafyrirtækið Janssen. Ákvörðun Lyfjastofnunar Evrópu um að veita Janssen markaðsleyfi er handan við hornið. Stofnunin gefur hugsanlega grænt ljós í þessari viku eða næstu. Vinnuregla Lyfjastofnunar hér er að gefa út markaðsleyfi um leið og sú evrópska. Rúna segist ekki geta sagt til um að bóluefni frá Janssen fari strax að streyma til landsins.

„Líklegast verður það frekar í apríl. Oft er ákveðið tímabil frá því að markaðsleyfi er gefið út þangað til að viðkomandi lyfjaframleiðandi skuldbindur sig til að afhenda bóluefni á hinum ýmsu stöðum í Evrópu í þessu tilfelli. Ég veit það að Janssen er að horfa til þess aukna framleiðslugetu með því að láta  framleiða efnið hjá öðrum lyfjaframleiðendum. Það er mikilvægt að benda á að Janssen-bóluefni er bara gefið einu sinni. Það þarf ekki að fara í seinni bólusetningu. Það mun skipta töluverðu máli.“

Jákvæð og bjartsýn

Rúna segir að líklega séu næstu bóluefni á markað frá CureVac, einnig Sputnik 5 frá Rússlandi og loks Novavax. Þessi bóluefni eru í áfangamati hjá Evrópsku lyfjastofnuninni. Þau gætu því verið á næstu grösum. Framboð á bóluefni gæti verið að aukast. Í áætlunum stjórnvalda hefur verið gert ráð fyrir að lokið verði að bólusetja 190 þúsund Íslendinga fyrir júnílok. En er Rúna bjartsýn á að það takist jafnvel að bólusetja fleiri fyrir þennan tíma?

„Ég er bara frekar jákvæð og bjartsýn á það að við munum ná þessum skömmtum til landsins. Ég byggi það á því að framleiðslugetan er að aukast og það eru að koma fleiri aðilar inn á markaðinn sem eru að bjóða og geta boðið bóluefni. Ég held að það muni breyta þessum leik nokkuð. Það er mjög erfitt að spá nákvæmlega fyrir um þetta. Það er eiginlega ekkert nema jákvæð teikn á lofti. Bæði það að það eru koma fleiri bóluefni. Það er að koma bóluefni sem þarf bara að bólusetja einu sinni og framleiðslugetan er að aukast fyrir Evrópumarkað,“ segir Rúna Hauksdóttir Hvannberg.