Nýjar upplýsingar í 30 ára gömlu mannshvarfsmáli

Hvað varð um piltana tvo sem yfirgáfu bifreið sína á Steingrímsfjarðarheiði í mars árið 1991?
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Starfsmenn Vegagerðarinnar á Hólmavík voru alvanir því að Steingrímsfjarðarheiði, fjallvegurinn á milli Stranda og Ísafjarðardjúps, reyndist ferðalöngum á svæðinu meiriháttar farartálmi. Mikill snjór á það til að safnast á heiðina og það kom reglulega fyrir að torfærur heiðarinnar reyndust tækjabúnaði Vegagerðarinnar ofviða. Stundum liðu margir dagar án þess að heiðin væri fær. Það kom því starfsmönnum Vegagerðarinnar lítið á óvart þegar þeir urðu varir við bláa Volvo-bifreið sem lagt var snyrtilega út í vegarkanti, þriðjudagsmorguninn 12. mars, eftir langa helgi ófærðar án nokkurs snjóruðnings. Sú ályktun var dregin, þá þegar, að ökumaður bílsins hefði fengið far með öðrum getumeiri bíl og jafnvel snúið við aftur í norðurátt, í átt að Ísafirði.

Í nýrri hlaðvarpsþáttaröð, Heiðinni, rýnir Snærós Sindradóttir blaðamaður í þrjátíu ára gamalt mál, þegar tveir átján og nítján ára piltar, þeir Jón Gísli Sigurðsson og Hafsteinn Hálfdánarson, hurfu á Vestfjörðum eftir ferðalag sem hófst í Reykjavík 8. mars 1991.

Heil vika leið

Spurningar heimamanna um bifreiðina vöknuðu ekki fyrr en föstudaginn 15. mars þegar eigandi bílsins, kona á sextugsaldri sem búsett var í Reykjavík, hafði samband við lögregluna á Hólmavík og sagðist ekki hafa heyrt í átján ára syni sínum í heila viku. Þá þegar hringdi lögreglan á Hólmavík í nærliggjandi bæi, en enginn kannaðist við að þeir Jón Gísli og Hafsteinn hefðu bankað upp á og óskað aðstoðar. Piltarnir voru týndir.

Kvöldið og nóttina eftir að móðir Hafsteins hóf eftirgrennslan eftir honum var eftirfarandi tilkynning lesin upp af og til í Ríkisútvarpinu:

 „Hafsteinn Hálfdánarson til heimilis að Gnoðarvogi 23, Reykjavík og Jón Gísli Sigurðsson til heimilis að Sólvallagötu 72, Reykjavík eru beðnir að hafa samband heim strax.“

Það kom þó aldrei til þess að Hafsteinn og Jón Gísli hefðu samband og daginn eftir, laugardagsmorguninn 16. mars, hófst leit að vinunum tveimur á snjóþungri Steingrímsfjarðarheiði.

Bifreiðinni snyrtilega lagt

Eftirgrennslan lögreglu leiddi í ljós að vinirnir tveir höfðu tekið fram úr vörubifreið um hálf tvö leytið, á leið sinni til Ísafjarðar, þar sem þeir voru staddir við Hattardal í Álftarfirði, nálægt botni fjarðarins sem bærinn Súðavík stendur við. Þeir tóku bensín á Ísafirði en lögðu aftur af stað til Reykjavíkur strax um kvöldið, þrátt fyrir að hafa átt ríflega átta klukkustunda ferð að baki yfir leiðinlega malarvegi og þunga fjallvegi.

Vinirnir tveir komu að Reykjanesi í Ísafjarðardjúpi um hálf eitt aðfaranótt laugardagsins 9. mars. Þeir keyptu sér pylsur og spurðu til vegar enda var veðrið orðið slæmt og algjört myrkur skollið á. Skyggnið var afar lítið. En áfram héldu Jón Gísli og Hafsteinn ferð sinni heim til borgarinnar, þrátt fyrir varnaðarorð þess sem þeir hittu á Reykjanesi.

Mynd með færslu
 Mynd: ja.is
Heimavistarskólinn að Reykjanesi við Ísafjarðardjúp

Bifreið piltanna fannst svo á Steingrímsfjarðarheiði, á svæði sem heimamenn þekkja sem Sóleyjarhvamm. Þegar lögregla kom fyrst að bílnum föstudaginn 15. mars, var þar að finna pylsurnar tvær sem keyptar höfðu verið á Reykjanesi, hálf fullan 20 lítra bensínbrúsa, pípu og svart veski Hafsteins með ökuskírteini og minnismiðum, ásamt skóflu sem lögreglu þóttu vísbendingar um að hefði ekki verið notuð. Fennt hafði að bílnum þá viku sem liðið hafði, en hann hafði þó ekki strandað í snjóskafli.

Það þýddi lítið að leita þá um kvöldið að piltunum enda veðrið vont og myrkur að skella á en tilkynningin, þar sem Jón Gísli og Hafsteinn voru beðnir um að hafa samband heim strax, var lesin upp í Ríkisútvarpinu um kvöldið án árangurs. Morguninn eftir, klukkan 8:20, var liðsinni björgunarsveitar óskað og svo hófst formleg leit. Nokkrir félagar úr björgunarsveitinni Dagrenningu á Hólmavík voru mættir og ásamt lögreglumönnum gengu þeir af stað til leitar. Þá komu þrír menn úr Björgunarhundasveit Íslands með björgunarbáti að Arngerðareyri í Ísafjarðardjúpi og hafði hver um sig einn leitarhund. Bláu Volvó-bifreiðinni var lagt snyrtilega í vegarkantinum í þeirri stefnu sem Jón og Hafsteinn ætluðu sér en leitin beindist niður af heiðinni í hina áttina.

Snjóþungt og slæmt veður

Tugir sentimetra af jafnföllnum snjó höfðu bæst á Steingrímsfjarðarheiði á þeirri viku sem leið frá því Jón Gísli og Hafstein voru á ferðinni. Það gerði björgunarsveitum erfitt fyrir og beita þurfti leitaraðferðum sem þekktust helst við snjóflóðaleit, þar sem þar til gerðum staurum eða prikum var ýtt niður í snjóinn í þeirri von að koma niður á fyrirstöðu. Það langt var liðið síðan mennirnir höfðu verið á ferli að ekkert þýddi að leita ummerkja eins og fótspora. Þegar leið að kvöldi fyrsta leitardags var veðrið farið að versna.

Mynd með færslu
 Mynd: Már Ólafsson - Heiðin
Leitarmenn á Steingrímsfjarðarheiði um miðjan mars 1991

Már Ólafsson, lögreglumaður á Hólmavík, var einn þeirra sem tók þátt í leitinni.

„Það var búið að vera geggjað veður og það snjóaði mikið. Það var allt á kafi í fönn. Við vorum að leita með stöngum og á víðavangi. Svo hvessir og það skefur ofan af honum og þá sjáum við hann.“

Jón Gísli var fundinn. Hann fannst liggjandi á grúfu klukkan 17:50 laugardaginn 16. mars 1991. Þá hafði hann verið týndur í viku en hans verið leitað þrotlaust í um níu klukkustundir við erfiðar aðstæður. Jón Gísli var staddur tæplega þrjátíu metra frá veginum en tæpa tvo kílómetra frá bílnum og hafði því líkast til gengið þónokkuð til baka í átt að Reykjanesi.

Aðeins tíu mínútum síðar, klukkan sex, var skollið á ofsaveður og leitarmenn þurftu að hætta leit að Hafsteini Hálfdánarsyni.

Ferð með fíkniefni

Á meðan lögregla og björgunarsveitir leituðu mannanna tveggja í grennd við bílinn á Steingrímsfjarðarheiði byrjuðu sögusagnir að grassera í Reykjavík. Lögreglan beindi sjónum sínum fyrst og fremst að leitinni sjálfri, í máli sem þótti kýrskýrt frá upphafi; tveir strákar festa bílinn sinn og verða úti.

Mynd með færslu
 Mynd: Þjóðskjalasafn Íslands - Úr lögregluskýrslum
Úr lögregluskýrslu

Í huga fjölskyldu og vina var málið aftur á móti meiri vafa undirorpið. Tilgangur ferðalagsins, sem hófst í Reykjavík að morgni 8. mars, var að selja fíkniefni á Ísafirði. Það vissu margir um tilurð ferðarinnar. Faðir Jóns Gísla vissi að fíkniefnasala var tilgangur hennar, sem og vinahópur þeirra í Reykjavík og kunningjar á Ísafirði. Það kom þeim lögreglumönnum sem rætt var við, við gerð þáttanna, jafnframt ekki á óvart þrátt fyrir að það atriði hefði aldrei verið skoðað á sínum tíma. Opinbera skýringin og lögregluskýrslur benda til þess að piltarnir hafi yfirgefið bíl sinn á Steingrímsfjarðarheiði og gengið af stað til byggða, orðið viðskila og að lokum orðið úti, en hvergi er minnst á fíkniefnasölu eða háar fjárhæðir.

Bæði fjölskylda og vinir voru þess hins vegar fullviss að ekki hefði verið um slys að ræða. Fíkniefnin voru mikils virði og ljóst að margir hefðu getað viljað ásælast efnin eða ágóðann.  

„[Faðir Jóns Gísla] sætti sig ekki við skýringar á því hvað gekk á. Hans kenning var sú að ef þeir voru fastir uppá Steingrímsfjarðarheiði vegna veðurs og ákveðið að labba til byggða þá hefði skynsamur strákur sem hann var farið í hverja einustu flík sem í bílnum var því hver maður sá að það var hættulegt að fara af stað,“  segir Svavar Hávarðsson, blaðamaður og ritstjóri, sem þekkti föður Jóns.

Jón Gísli og Hafsteinn  voru, eins og tímasetning hvarfsins gefur til kynna, símalausir og menn verða kaldir í bíl sem stöðvaður hefur verið en þó er ýmislegt sem bendir til þess að biðin í bílnum hafi ekki verið ýkja löng. Pylsurnar tvær sem keyptar voru á Reykjanesi voru aldrei kláraðar og lágu hálfétnar í aftursæti bifreiðarinnar. Tuttugu lítra bensínbrúsinn í bílnum var að minnsta kosti hálfur svo ekki voru mennirnir bensínlausir og því hefði átt að vera hægt að hafa bifreiðina í gangi eitthvað lengur og leyfa hlýrri miðstöðinni að malla áfram. Veski Hafsteins varð eftir í bílnum með öllum hans upplýsingum og minnismiðum. Bílstjórasætið hafði verið lagt aftur svo mögulega hafði annar þeirra lagt sig um stund. Það var mið nótt þegar þeir komu að Reykjanesi til að kaupa pylsurnar og í Sóleyjarhvamm á Steingrímsfjarðarheiði hafa þeir líklega verið komnir um 40 mínútum síðar.

Mynd með færslu
 Mynd: Tímarit.is - Morgunblaðið

Skýrslur lögreglu vandfundnar

Eftir því sem árin liðu fennti yfir málið en spurningum vina og fjölskyldu var enn ósvarað. Óskum föður Jóns um aðgang að lögregluskýrslum var ýmist neitað eða ekki svarað og það svaraleysi kynnti undir þá tilfinningu að ekki væri allt með felldu varðandi hvarf piltanna tveggja. Hið sama var uppi á teningnum árið 2017 þegar blaðamaður hóf að grennslast fyrir um málið. Allt þar til starfsmaður lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hafði það á orði að á endanum færu gögn allra mála til Þjóðskjalasafns. Það væri reynandi að athuga hvort skýrslum þessa máls hefði þegar verið skilað þangað.

Í lögum um Þjóðskjalasafn Íslands segir að veita megi aðgang að gögnum þegar þau eru orðin þrjátíu ára gömul. Ef viðkvæmar persónuupplýsingar, svo sem vernd vitna eða brotaþola, koma fram í gögnunum má afhenda þau þegar gögnin eru orðin áttatíu ára gömul. Samstarf við fjölskyldu Jóns Gísla gerði það þó að verkum að gögnin, sem komin voru til safnsins, fengust afhent en voru nokkuð mikið svert vegna viðkvæmra persónulegra upplýsinga.

Þrátt fyrir svertun Þjóðskjalasafns gáfu gögnin glögga mynd af rannsókn lögreglu og leit björgunarsveita á vormánuðum 1991.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Þjóðskjalasafn - Heiðin
Úr lögregluskýrslu

Faðir Jóns Gísla, Sigurður Gíslason, lést árið 2016 en Svavar Hávarðsson átti fjölmörg samtöl við hann um hvarfið þegar leiðir þeirra lágu saman nokkrum misserum eftir atburðina á Steingrímsfjarðareiði.

„Hann var eðlilega mjög upptekinn af dauða sonar síns. Hann var alveg ofboðslega sár yfir því að lögreglan virtist ekki, nú hef ég bara hans orð fyrir því, hafa farið ofan í ýmsa þætti málsins sem honum fannst grunsamlegir. Þeir lokuðu málinu án þess að skoða vissa hluti sem fjölskyldan þurfti svör við, og átti kannski heimtingu á að fá svör við.“

Þeir Jón Gísli og Hafsteinn höfðu ætlað sér að dvelja á Ísafirði í tvo daga en virðast hafa tekið ákvörðun þegar til Ísafjarðar var komið, að snúa aftur heim og freista þess að vera komnir til Reykjavíkur undir morgunn. Hvað varð til þess að slíkt óðagot var á piltunum var ein af þeim spurningum sem engin svör fengust við.

Hvarfinu veitt lítil athygli

Hvarf Hafsteins Hálfdánarsonar og Jóns Gísla Sigurðarsonar er eitt þessara mála sem ekki situr eftir í þjóðarminninu. Raunar fór það lítið fyrir hvarfinu á sínum tíma, fyrir þrjátíu árum síðan, að það hefði auðveldlega getað farið fram hjá þorra þjóðarinnar, jafnvel á meðan leitinni stóð. Fyrir utan hið augljósa, að þúsundir höfðu ekki tækifæri til að deila mynd af Hafsteini og Jóni Gísla á samfélagsmiðlum eins og gert yrði í dag, þá var hvarfi þeirra tiltölulega lítill gaumur gefinn í fjölmiðlum. Um ungu mennina voru fáar greinar skrifaðar í dagblöð og það var helst að birtar væru einfaldar fréttatilkynningar yfirvalda um að leit stæði yfir.

Í Heiðinni, sem framleidd er af RÚV, er fjallað um það þegar vinirnir tveir hurfu fyrir sléttum þrjátíu árum. Skömmu síðar var hvarfið grafið og gleymt en þetta er í fyrsta sinn sem málinu eru gerð skil með svo nákvæmum hætti og óhætt að segja að hlustendur megi eiga von á að upplýsingar komi fram sem aldrei hafa litið dagsins ljós, hvorki í fjölmiðlum né í rannsókn lögreglu á sínum tíma.

Heiðin verður á dagskrá Rásar 2 klukkan 12:40 á skírdag, föstudaginn langa og laugardag um páska.

Saga þeirra Jóns Gísla og Hafsteins verður sögð í þremur þáttum sem allir eru aðgengilegir í spilara RÚV og á helstu hlaðvarpsveitum frá og með mánudeginum 8. mars. Þá eru slétt 30 ár liðin frá því að félagarnir lögðu af stað frá Reykjavík til Ísafjarðar á bláu Volvo-bifreiðinni, í sitt hinsta ferðalag. Samhliða þáttunum birtist greinaröð á vef RÚV með aukaefni og áður óséðu myndefni frá leitinni sem gæðir frásögnina lífi. Þessi grein er sú fyrsta í þeirri röð.

 

08.03.2021 - 09:00