Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Níu konur kæra rannsóknir á ofbeldisbrotum til MDE

Mynd: Villhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Níu íslenskar konur hafa lagt fram kærur til Mannréttindadómstóls Evrópu vegna málsmeðferðar íslenska réttarkerfisins. Konurnar kærðu ofbeldisbrot, nauðganir og áreitni til lögreglu, en málin voru felld niður. Dómstóllinn hefur móttekið og skráð málin. „Kerfið er ítrekað að sparka í liggjandi manneskju sem er brotin fyrir,” segir ein kvennanna.

María Árna­dótt­ir sagði sögu sína á baráttufundi í morgun, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna. María kærði ofbeldi í nánu sambandi til lögreglunnar, en það fyrntist þar og fór aldrei neitt annað í kerfinu. Hún er ein þeirra níu kvenna sem hafa kært mál sín til MDE. 

Viðtal við Maríu má nálgast í spilaranum hér að ofan og hér er hluti af framsögu hennar frá fundinum í morgun: 

Ég kærði ofbeldi í nánu sambandi til lögreglu árið 2017, sem ég varð fyrir árið 2016, tvær líkamsárásir og hótun. Við tók margra mánaða bið, þar sem ég fékk nánast engar upplýsingar um gang málsins sem var verulega streituvaldandi fyrir mig.

Brotaþoli hefur ekki lagalegan rétt á gögnum máls við rannsókn eins og sakborningur hefur, og getur þ.a.l. ekki fylgst með máli sínu, t.a.m. hvort búið er að sækja gögn, kynna sakborningi sakarefni, tala við vitni o.þ.h.

Ég sendi ítrekað tölvupósta til rannsakenda um að ég hefði áhyggjur af fyrningu í máli, því ég vissi ekki hvort búið væri að kynna sakborningi sakarefni kæru. Mér var sífellt sagt að það verið væri að reyna að ná í hann í síma.

Ég bað rannsakanda m.a. að staðfesta hvenær fyrningafrestur myndi rofna í málinu, en fékk ekkert svar. Sumarið 2018 rúmlega sjö mánuðum eftir kæru, fékk ég vitneskju um að rannsókn væri lokið í máli mínu. Ég vissi að það gæti ekki staðist, því á þeim tíma hafði hvorki verið talað við bein eða óbein vitni í máli.

Ég og réttargæslulögmaður minn mótmæltum áfkaft, og var þá loks haft samband við vitni í máli, um níu mánuðum eftir að kæra var lögð fram. Skýrsla var ekki tekin af sakborningi fyrr en í sept 2018, rúmlega átta mánuðum eftir kæru, en ég lagði fram kæru í des.2017. Þá voru líkamsárásarbrotin í raun fyrnd án þess að mér væri kunnugt um það á þeim tíma. Ég vissi allan tímann að það væri eitthvað bogið við rannsóknina í málinu, en mig skorti kæruheimild í lögum til að geta gert eitthvað í því. Þessari vanlíðan fylgir gríðarleg vanmáttartilfinning.

Í lok apríl 2019 u.þ.b. einu og hálfu ári eftir kæru fékk ég bréf frá saksóknarafulltrúa hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þess efnis að málið þætti ekki nægjanlegt eða líklegt til sakfellis og var málið fellt niður í heild sinni.

Konurnar níu eru á aldrinum 17 til 44 ára og snúa kærurnar til Mannréttindadómstólsins að brotum brot á rétti þeirra til réttlátrar málsmeðferðar í íslenska dómskerfinu. Konurnar kærðu allar ofbeldisbrot til lögreglunnar á Íslandi en málin voru felld niður. 

Meðal þeirra annmarka á rannsóknunum sem teknar eru fram í kærunum eru: 

  • Mál fyrntist í höndum lögreglu á meðan það var til rannsóknar vegna þess hve lengi dróst að boða sakborning í skýrslutöku.
  • Almennt tóku málin alltof langan tíma í rannsókn lögreglu.
  • Sakborningar höfðu marga mánuði til að undirbúa sig fyrir skýrslutöku og samræma frásagnir vegna seinagangs lögreglu við rannsókn mála.
  • Vitni sem höfðu lykilþýðingu í málum voru ekki boðuð í skýrslutöku og litið var framhjá skýrslum vitna sem studdu við frásögn brotaþola.
  • Lítið sem ekkert sönnunargildi er lagt í þau sönnunargögn sem til eru til staðar.
  • Líkamlegir áverkar virðast heldur ekki teljast fullnægjandi. Dæmi voru um að það hefði þótt ósannað að brotaþolinn hefði veitt mótspyrnu þrátt fyrir líkamlega áverka.
  • Í öðrum tilvikum var litið fram hjá sönnunargögnum á vettvangi, s.s. myndum eða myndbandsupptökum tekin á síma sem og ummerkjum s.s. brotnum gluggum.
  • Játningar sakborninga voru ekki teknar til greina.
  • Neitun sakbornings virðist vega þyngra en framburður brotaþola sem studdur er með vitnum og sönnunargögnum og er það mikil hindrun gegn réttlátri málsmeðferð fyrir brotaþola.
sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV