Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Meghan segist hafa íhugað að svipta sig lífi

epa09013012 (FILE) - Britain's Prince Harry, Duke of Sussex (R) and his wife Meghan, Duchess of Sussex visit Canada House in London, Britain, 07 January 2020 (reissued 14 February 2021). The Duke and Duchess of Sussex are expecting their second child, a spokesperson for the couple has confirmed on 14 February 2021.  EPA-EFE/FACUNDO ARRIZABALAGA
 Mynd: Facundo Arrizabalaga - EPA-EFE
Meghan hertogaynja af Sussex íhugaði að vinna sjálfri sér mein, svo erfitt reyndist henni lífið innan bresku konungsfjölskyldunnar. Þetta kom fram í viðtali sem Meghan og Harry Bretaprins veittu Oprah Winfrey og sýnt var á bandarísku sjónvarpsstöðinni CBS í gær. Það verður sýnt í Bretlandi í kvöld.

Viðtalið er það fyrsta sem hjónin veita fjölmiðlum eftir að þau tilkynntu fyrir rúmu ári að þau myndu láta af öllum konunglegum skyldum sínum. Meghan sagði að hún hafi ekki fengið þá andlegu hjálp sem hún þurfti eftir að hún varð hluti af konungsfjölskyldunni. Miklar skorður hafi verið á því hvað henni væri leyfilegt að gera og að mánuðum saman hafi hún ekki farið út fyrir hússins dyr. Winfrey spurði hana hvort hún hafi hugsað um að svipta sig lífi og því svaraði Meghan: „Já. Það er alveg ljóst. Alveg ljóst og mjög ógnvekjandi. Ég vissi ekki hvert ég átti að leita eftir hjálp,“ sagði hertogaynjan.

Hjónin ræddu einnig kynþáttahatur, sem þau kváðust hafa fundið fyrir innan konungsfjölskyldunnar og í viðtalinu kom fram að Harry hafi verið spurður að því af einum í fjölskyldunni hve dökkur á hörund sonur þeirra Meghan, Archie, yrði. Þessar vangaveltur komu upp á meðgöngunni og lýsir Meghan þessari stundu sem afar erfiðri.

Þá greindi Harry frá því að Karl Bretaprins, faðir hans, hafi á tímabili hætt að svara símtölum frá honum. Það var þegar hjónin fóru að íhuga að segja sig frá öllum konunglegum skyldum sínum. Harry sagði í viðtalinu að samband hans við ömmu sína, Elísabetu Bretadrottningu, væri mjög gott og að þau tali reglulega saman. Aftur á móti væri samband hans við föður sinn, Karl Bretaprins, síðra. Honum finnist faðir sinn hafa brugðist sér en að hann eigi alltaf eftir að elska hann. 

Hjónin búa nú í Montecito í Kaliforníu og eiga von á öðru barni í sumar og greindu frá því í viðtalinu að það væri stúlka. 

CNN og BBC fjalla ítarlega um sjónvarpsviðtalið.