Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Komufarþegar í sóttkví þar sem er sérinngangur

08.03.2021 - 16:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir koma til greina að skylda þá sem koma frá útlöndum til að vera í sóttkví þar sem ekki er sameiginlegur inngangur í ljósi þess að starfsmaður Landspítalans virðist hafa smitast í stigagangi fjölbýlishúss síns þar sem annar smitaður býr.

Nýjar reglur koma til greina

Hann segir að nú verði að skoða viðbúnaðinn við komu til landsins: 

„Við þurfum bara að fara betur ofan í ákveðna ferla, hvort við getum bætt þá. Við þurfum að skoða aðeins betur hvort við getum forðað eða beðið fólk eða látið fólk ekki fara í svona sambýli þar sem eru margir með sameiginlega innganga osfrv. Við erum bara að skoða þetta hvort að það sé framkvæmanlegt,“ segir Þórólfur.

Kemur til greina sem sagt að setja einhverjar slíkar reglur?

„Já, já, það kemur til greina. Þess vegna erum við að skoða þetta.“ 

Þórólfur segir hins vegar illframkvæmanlegt að skylda alla komufarþega í sóttkví í sóttvarnahúsi, því þá þyrfti mörg hús því komufarþegar séu svo margir.

Fari aftur í sýnatöku ef enn veik

Starfsmaður Landspítalans sem greindist smitaður á laugardaginn var búin að vera lasinn nokkru áður og fór því í sýnatöku. Niðurstaðan úr því var neikvæð og því fór hann til vinnu og á tónleika í Hörpu á föstudagskvöldið. Þórólfur segir að PCR próf séu ekki 100% örugg en að þau séu hins vegar öruggustu prófin. Allir sem finni fyrir einkennum eigi að fara í sýnatöku: 

„Ef að niðurstaðan er neikvæð, það er bara ágætt en ef fólk er ennþá með einkenni að þá á það samt sem áður að halda sig til hlés. Passa að vera ekki fara í fjölmenni, vera innan um viðkvæma hópa eða viðkvæma einstaklinga. Og svo ef að gangurinn er kannski ekki alveg eðlilegur þá er ekkert að því að fara aftur í próf.“