
Ísland framarlega í rafbílavæðingunni
„Norðmenn byrjuðu rafbílavæðinguna fyrr, með niðurfellingu á gjöldum. Þar í landi hjálpar líka að samkeppnishæfni rafbíla í Noregi eykst með því verðmunur minnkar milli jarðefnaeldsneytisbíla og rafbíla,“ segir Runólfur í samtali við fréttastofu.
Hann segir ýmis fríðindi hafa verið boðin eigendum rafbíla sem þó séu á undanhaldi. Norðmenn hafi verið mjög öflugir í að byggja upp innviðakerfi en að Íslendingar hafa verið aðeins á eftir.
Runólfur gerir ráð fyrir aukinni samkeppni í innviðauppbyggingu, til að mynda með þátttöku olíufélaganna. Það hvetji almenning og auki möguleika fólks á að velja rafmagnsbíl.
Stjórnvöld hafi veitt styrki til innviðauppbyggingarinnar og nú sé orðið mögulegt að aka á rafbíl hringveginn án þess að lenda í að fá ekki hleðslu.
Runólfur segir rekstur á rafbílum ódýrari en á bensín- og dísilbílum, og að orkukostnaður yrði hagstæðari þrátt fyrir að tekin yrðu upp orku- eða kílómetragjöld.
Að sögn Runólfs hefur verið fjallað um aðgengi að hleðslu á vegum Reykjavíkurborgar, orkufyrirtækjanna og eldsneytissala. Sérfræðingar á þeirra vegum tali um svokölluð safnstæði sem lausn þar sem hægt verð að hlaða rafbíla.
Ráð sé gert fyrir slíkum stæðum í nýrri hverfum, til að mynda sé ákveðið hlutfall stæða á Kirkjusandi þess háttar. „Valkostum í rafbílum hefur fjölgað og tala má um sprengingu í sölu á tengiltvinnbílum,“ segir Runólfur.
Slík farartæki eru eru búin bensínvél og rafmótor, sem er hlaðinn með því að stinga í samband. Yfirleitt geti eigendur slíkra bíla komist allra sinna ferða innanbæjar á rafmagninu en mikilvægt sé að muna að ræsa bensínvélina af og til.
Á vef FÍB kemur fram að Bílgreinasambandið geri ráð fyrir að alls verði keyptir 11 þúsund fólksbílar á árinu 2021. Það þýðir að verði hlutfall hreinna rafbíla bætist 2.750 rafbílar við bílaflotann á árinu.