Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Enn betur sótthreinsað í Hörpu en vanalega

Mynd: Óðinn Jónsson / Morgunvaktin
Starfsmenn tónleikahússins Hörpu sem voru þar við vinnu á föstudagskvöldið þurfa að fara í skimun og voru ekki að störfum í gær. Þetta kom fram í samtali við Svanhildi Konráðsdóttur, forstjóra Hörpu í morgunútvarpi Rásar 2.

Eftir samráð við sóttvarnarlækni og almannavarnir þótti hvorki ástæða til að aflýsa tónleikum né að breyta fyrirkomulagi í húsinu. 

„Við til dæmis þurftum að endurmanna alla framlínuna á sunnudeginum. Það var vegna vegna þess að það fólk sem var að störfum á föstudag var ekki boðað aftur í vinnu eðlilega,“ sagði Svanhildur.

Enn betur hafi verið sótthreinsað í húsinu í gær en vanalega. „Og svo ákváðum við líka í gær að rýma Eldborg í hollum.“  Svanhildur segir allt vera hreinsað og sprittað milli viðburða og snertifletir hreinsaðir sérstaklega.

Gaumgæfilega hafi verið farið yfir sóttvarnarhólfið þar sem smitaði gesturinn sat á föstudagskvöldið. Þar hafi níu til ellefu setið en Svanhildur þakkar það hversu vel allar upplýsingar um tónleikagesti eru skráðar að rakning gekk hratt og vel fyrir sig. 

Svanhildur segir miklu skipta að huga að persónulegri hegðun, og hvernig fólk passi sig sjálft og hvert annað.

„Þetta atvik getur sett allt í baklás aftur, en vísbendingar í skimunum benda til að ekkert smit hafi komið upp á tónleikunum. Við verðum að vona að svo sé.“ 

„Þetta er veruleikinn, þess vegna verðum við að passa okkur við hvert einasta skref.“ Nokkrir viðburðir, tónleikar og ráðstefnur eru framundan í Hörpu að sögn Svanhildar.

„Ef guð lofar og allt hefur gengið vel höldum við okkar striki en að öðru leyti förum við að þeim fyrirmælum sem koma út úr þessu.“