Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Eldur í nýbyggingu hótels í Ilulissat á Grænlandi

08.03.2021 - 05:47
Eldur kviknaði í ókláraðri hótelbyggingu í Ilulissat á Grænlandi sunnudagskvöldið 7. mars 2021
 Mynd: S. Ignatiussen - KNR
Mikill eldur kom upp í ókláraðri nýbyggingu hótels í bænum Ilulissat á vesturströnd Grænlands í gærkvöld. Mikinn reyk lagði frá eldinum og var íbúum ráðlagt að halda sig innandyra og loka öllum gluggum. Tilkynning barst um eldinn laust eftir átta í gærkvöld að staðartíma og tók það slökkvilið rúmar tvær klukkustundir að ná tökum á honum og enn lengur að ráða endanlegum niðurlögum hans.

Frá þessu er greint á vef grænlenska ríkisútvarpsins, KNR. Þar segir enn fremur að ekkert bendi til þess að meiðsl hafi orðið á fólki í eldsvoðanum. Eldsupptök eru ókunn og hefst lögreglurannsókn á vettvangi með morgninum. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV