Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Dagur villtrar náttúru

08.03.2021 - 14:04
Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd / RÚV
Stefán Gíslason fjallar í umhverfispistli sínum um gildi villtrar náttúru og hversu takmörkuð í raun þekking okkar er á náttúrunni og uppbyggingu hennar og þörfum, og varar við því að við nálgumst hana með nytjahyggju eina að leiðarljósi.

Mikilvæga dýra og plantna

Þann 3. mars, var alþjóðadagur villtrar náttúru (eða World Wildlife Day, eins og þetta heitir á ensku). Þessi dagur á sér ekki ýkja langa sögu, því að ákvörðun um tilurð hans var tekin þann 20. desember 2013 á 68. Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.

Dagsetningin 3. mars er engin tilviljun, því að þann dag árið 1973 undirrituðu fulltrúar þjóða heims Samninginn um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu, þ.e.a.s. samninginn sem venjulega gengur undir nafninu CITES. Þess vegna ákvað allsherjarþingið að þessi tiltekni dagur skyldi verða alþjóðadagur villtrar náttúru. Tilgangurinn var aðallega að minna á mikilvægi villtra dýra og plantna fyrir okkur öll.

CITES-samningurinn nær til milliríkjaverslunar með lifandi og dauð dýr, plöntur og afurðir þeirra – og þær tegundir sem um ræðir eru skráðar í sérstakan viðauka við samninginn. Mikill meirihluti ríkja heims eru aðilar að samningnum, eða samtals eitthvað um 180 ríki.

Kannski hættir sumum okkar til að hugsa að villt náttúra sé fyrst og fremst eitthvað sem við þurfum á að halda til að næra sálina og fá hvíld í frá daglegu amstri og áhyggjum. Flestum líður vel þegar þeir sjá fugl með unga úti í móa – eða sjá sólina skína niður á milli trjánna á skógarstíg þar sem gott er að ganga í föllnu barri og njóta lyktar og skjóls. Og gott frí í útlöndum verður jafnvel enn betra þegar maður sér íkorna skjótast upp í tré. En þegar þarf að fá pláss fyrir nýtt íbúðarhverfi eða leggja greiðan veg á milli byggða, þá hikum við ekki við að þurrka upp votlendi, ryðja burt skógi eða brúa fjörð. Auðvitað vitum við innst inni að með þessu erum við að þrengja að villtri náttúru, spilla búsvæðum fugla, eða hvað það nú er, en við hljótum alltaf að geta endurheimt votlendi einhvers staðar annars staðar eða plantað nýjum trjám þar sem þau eru ekki fyrir okkur. Og svo hljóta fuglarnir að geta verpt annars staðar eða tyllt sér annars staðar á leið sinni til Grænlands á vorin.

Fyrir hvern er villt náttúra?

Auðvitað vitum við innst inni að villt náttúra er ekki bara gerð fyrir okkur til að við getum slakað á og hresst upp á sálina á erfiðum stundum. En við virðumst samt stundum gleyma því að öll tilvera okkar byggir á þessari villtu náttúru og að án hennar gætum við ekki lifað. Jafnvel ólíklegustu hlutar þessarar villtu náttúru eru forsendur fyrir áframhaldandi lífi okkar mannanna á jörðinni. Og þegar ég tala um „ólíklegustu hluta“ á ég m.a. við skordýr, smádýr í jarðvegi eða bakteríur, sem fara jafnvel í taugarnar á okkur og veita okkur enga sjónræna gleði á sólríkum sunnudegi. Við reynum jafnvel að útrýma sumum af þessum „ólíklegustu hlutum“ af því að þeir fara svo mikið í taugarnar á okkur. Dæmi um það eru geitungar, fiðrildalirfur, arfi og jafnvel köngulær. Samt hafa allar þessar lífverur sitt hlutverk í lífkerfinu og án þeirra væri líf okkar sjálfra líklega mun verra en það er. Orsakasamhengið í lífkerfinu er nefnilega ekki alltaf einfalt. Við höldum kannski að við vitum allt, en samt skiljum við bara brot af því ógnarflókna kerfi sem lífið er. Í þessu sambandi er ágætt að rifja sem oftast upp máltæki sem oft er kennt við Indíánaþjóðflokka: „Maðurinn óf ekki vef lífsins. Hann er bara hluti af þessum vef – og það sem hann gerir vefnum, gerir hann sjálfum sér“. Önnur leið til að segja það sama er að vitna í orð bandaríska vistfræðingsins Aldo Leopold: „Hámark fáviskunnar er maðurinn sem segir um dýr eða jurtir: „Hvaða gagn er að þessu?“ ... Ef gangvirki landsins í heild er gott, þá er hver hluti þess góður, hvort sem við skiljum hann eða ekki. Ef lífríkið hefur á óratíma byggt upp eitthvað sem okkur geðjast að en við skiljum ekki, hver nema fáráðlingur mundi þá losa sig við þá hluta sem virðast gagnslausir?“.

Stundum heyrum við fréttir af því að í útlöndum séu villt dýr í auknum mæli farin að leita inn í bæi og borgir, angra fólk, róta í ruslatunnum og þvælast fyrir ökutækjum. En í raun og veru er þessu alveg öfugt farið. Það erum sem sagt við sem höfum í auknum mæli leitað inn á búsvæði villtra dýra, fellt trén til að rýma fyrir ræktarlandi eða nýjum borgarhverfum, þurrkað upp votlendi, rutt burt skógi eða brúað fjörð. Eins og ég nefndi áðan er þetta oft gert í þeirri lítið ígrunduðu vissu að plönturnar geti vaxið annars staðar og dýrin fundið sér ný heimkynni. Þetta er það sem oft er kallað „Salamiáhrifin“. Villt náttúra er nefnilega svolítið eins og stór salamipylsa. Það getur varla skipt miklu máli þó að við skerum eina örþunna sneið ofan á brauð. Samt er nóg eftir. En þó að við skerum bara þunna sneið einstaka sinnum, jafnvel á nokkurra ára fresti, þá minnkar samt pylsan við hverja sneið – og á endanum klárast hún. Engin pylsa inniheldur óendanlega margar örþunnar sneiðar.

Smithætta og fleiri vandamál

Fyrst minnst er á villtu dýrin sem eru í auknum mæli farin að leita inn í bæi og borgir – eða öfugt, þá er óhjákvæmilegt að rifja upp hvers vegna við erum að kljást við þennan COVID-faraldur. Jú, það er einmitt vegna þess að þegar þrengt er að hinni villtu náttúru aukast líkurnar á að smit berist úr villtum dýrum í menn.

Við getum notað íslenskt fálkahreiður sem dæmi um það hversu takmörkuð þekking okkar er á vef lífsins. Kannski eyðileggst eitthvert hreiðurstæði vegna þess að við leggjum veg eða byggjum virkjun. En fálkinn drepst ekkert – og hann hlýtur þá að geta fundið sér nýjan stað til að verpa á. Er ekki nóg af klettum á Íslandi? Það sem við skiljum ekki er kannski það að fálkinn þarf ekki bara að finna sér nýtt hreiðurstæði, heldur nýtt óðal, þ.e.a.s. nýtt hreiðurstæði með stóru helgunarsvæði allt í kring. Hinir fálkarnir hafa nefnilega þegar helgað sér sín svæði og eru alls ekki til í að hleypa einhverjum hælisleitendum inn á það.

Annað dæmi um takmarkaða þekkingu okkar á vef lífsins er sagan um það hvernig aukin notkun verkjalyfsins Voltaren leiddi til fjölgunar hundaæðistilfella í Indlandi og Pakistan. Þar um slóðir var þetta tiltekna lyf notað í miklum mæli í byrjun þessarar aldar til að lina þrautir heilagra kúa. Sumar þessara kúa urðu samt að fæðu fyrir hrægamma, sem þola Voltaren einmitt sérlega illa. Lyfið eyðileggur nefnilega í þeim nýrun. Þess vegna drápust hrægammar unnvörpum og fækkaði sums staðar um allt að 99% á 10 ára tímabili. Sala lyfsins sem dýralyfs var bönnuð 2006 og það varð stofnun hrægamma til bjargar, alla vega í bili. Hrægammar njóta ekki mikilla vinsælda, en fækkun þeirra hafði þó ýmsar óheppilegar aukaverkanir, m.a. þær að hundaæðistilfellum fjölgaði verulega. Ástæðan var sú að villihundum fjölgaði heil ósköp þegar þeir þurftu ekki lengur að keppa við hrægammana um aðgang að hræjum. Inngrip í vef lífsins hafa oft óvæntar afleiðingar.

Alþjóðadagur villtrar náttúru 2021, þ.e.a.s. í gær, var helgaður málefninu „Skógar og lífsviðurværi – að viðhald mannkyni og jörð“. Með því er kastljósinu beint að hlutverki skóga, dýralífs og náttúrulegra vistkerfa í að viðhalda lífsviðurværi hundraða milljóna fólks um heim allan. Og svo er upplagt að nota þetta tækifæri til að velta því fyrir sér hvort við séum á réttri leið í umgengni okkar við hina villtu náttúru.

 

thorhildurg's picture
Þórhildur Guðrún Ólafsdóttir
dagskrárritstjórn