Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Átján mál fyrir MDE með vísun í Landsréttarmálið

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Embætti ríkislögmanns hefur átján mál til meðferðar fyrir Mannréttindadómstól Evrópu sem byggja á sama grunni og Landsréttarmálið, og þrjár beiðnir eru til meðferðar hjá Endurupptökudómi þar sem vísað er til dóms Mannréttindadómstólsins í Landsréttarmálinu. Þetta kemur fram í svörum Endurupptökudóms og embætti ríkislögmanns við fyrirspurnum fréttastofu. Ríkið hefur frest til 16. mars til að semja um sátt í málunum.

Óréttlát málsmeðferð fyrir Landsrétti

Fréttastofa fjallaði í desember um að yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu hefði staðfest dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu svokallaða sem var kveðinn upp í mars í fyrra, um að Sigríður Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, hefði brotið lög með skipun dómara við Landsrétt.

Í úrskurðinum fólst einnig að Guðmundur Andri Ástráðsson hefði ekki hlotið réttláta málsmeðferð fyrir Landsrétti vegna óréttmætrar skipunar. Í dómnum sagði um mál Guðmundar að alvarlegir annmarkar hefðu verið á skipan eins landsréttardómara sem dæmdi í hans máli, og að í því hefði falist gróft brot á landslögum sem gilda um skipan dómara. Og nú eru átján sambærileg mál til meðferðar hjá Mannréttindadómstólnum.  

„Í kjölfar þessa máls var viðbúið að fleiri sambærileg mál yrðu rekin fyrir Mannréttindadómstólnum. Síðan kemur dómur yfirdeildarinnar í desember og þá lá náttúrulega fyrir að þau mál sem hafði verið skotið til dómstólsins á sama grundvelli, að það yrði eitthvað að gera í þeim málum. Og þá lagði dómstóllinn til við íslenska ríkið að það yrði reynt að semja í þeim málum,“ segir Berglind Svavarsdóttir, formaður Lögmannafélags Íslands, í samtali við fréttastofu. 

Málin eru í sáttaferli

Málin átján sem eru til meðferðar fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, á þeim grundvelli að þau séu sambærileg máli Guðmundar Andra, eru í sáttaferli eftir að Mannréttindadómstóllinn gaf ríkinu frest til 16. mars til að semja um sátt í málunum. Fréttablaðið hefur fjallað um sáttaferlið. Embætti ríkislögmanns rekur málin og samkvæmt upplýsingum þaðan eru málin enn í vinnslu. 

Berglind telur að ríkið hljóti að reyna til hins ýtrasta að semja um sátt. „Þetta mál hefur haft miklar afleiðingar fyrir okkur og það er ekki enn komin endanleg niðurstaða í þetta. Niðurstaða liggur fyrir í einu máli og ef önnur nákvæmlega sambærileg mál liggja fyrir dóminum þá er ljóst að niðurstaðan verði sú sama: að það hafi verið brotið gegn 6. grein mannréttindasáttmálans. Vill íslenska ríkið fá á sig 18 áfellisdóma í viðbót eða vill það reyna að semja um lyktir mála?“ segir Berglind.

Niðurstaðan yrði sennilega sú sama

Hún telur ólíklegt að málunum fjölgi enn frekar. „Væntanlega er þetta endanlegur fjöldi. Þetta eru þau mál sem voru rekin í Landsrétti þar sem aðilar töldu að þeir hefðu ekki notið réttlátrar málsmeðferðar vegna óréttmætrar skipunar. Þannig að það ætti alveg að vera komið fram,“ segir Berglind. 

„Ef ekki næst að semja í þessum málum þá verður íslenska ríkið að skila greinargerð í þeim málum, en þá liggur fyrir að það er komið dómafordæmi. Og það eru meiri líkur en minni á að niðurstaðan í þeim málum verði nákvæmlega sú sama,“ segir hún.