Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

500 skjálftar frá miðnætti og engir stórir

Mynd með færslu
Trölladyngja Mynd: Aðsend mynd: Óskar Arason - RÚv
Um 500 jarðskjálftar hafa mælst á umbrotasvæðinu á Reykjanesskaga í nótt, talsvert færri en undanfarnar nætur, og engin merki voru um gosóróa. Þetta kemur fram í skeyti jarðvársérfræðinga Veðurstofunnar, sem sent var laust fyrir sex. Aðeins tveir þessara skjálfta mældust stærri en þrír; annar þeirra 3,1 en hinn 3,3 að stærð. Þeir urðu báðir rúmlega hálf eitt í nótt.

Þrettán skjálftar til viðbótar voru stærri en tveir, en aðrir minni. Virknin var mest við Fagradalsfjall en einnig mældust skjálftar við Reykjanestá, Þorbjörn og Trölladyngju.

Í gær, 7. mars, mældust um 2.800 jarðskjálftar á skaganum, þar af hafa um 300 skjálftar verið yfirfarnir. Stærsti skjálftinn mældist 5,0 að stærð kl.02:01og fannst víðsvegar á suðvesturhorninu.
 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV