Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Þau sem eiga bústað drifu sig út úr bænum“

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
„Ég heyrði á fólki að allir sem ættu bústað hefðu drifið sig út úr bænum,“ segir Elínborg Gísladóttir, sóknarprestur í Grindavík. „Fólk sem getur farið, það fer og það er fínt að fara út úr þessu umhverfi,“ segir hún í samtali við fréttastofu. „Þetta hefur alls konar áhrif á fólk en þetta eykur auðvitað á kvíða þeirra sem eru kvíðnir fyrir,“ segir hún um skjálftana síðustu daga, sem fundust sérstaklega vel í Grindavík í nótt.

Elínborg fann fyrir miklum og stöðugum hristingi milli klukkan tvö og fjögur í nótt en klukkan tvö varð stærsti skjálftinn, fimm að stærð. „Ég held að þetta hafi verið versta nóttin okkar í Grindavík, ég held að við höfum öll verið vakandi. Það hristist allt meira og minna milli tvö og fjögur. Það var miklu meiri umferð en venjulega í nótt, það var alveg ljóst að það voru allir farnir á stjá. Þegar skjálftinn er svona nálægt þá kemur hann svo snöggt, það er enginn undanfari eins og venjulega, hann bara kemur,“ segir hún.

Hún segir að skjálftarnir hafi sennilega mest áhrif á þá sem ekki eru vanir þeim. „Pólska samfélagið sem er stórt hérna, það  hefur ekki endilega reynslu af þessum skjálftum. Og bærinn er að hlúa að þeim, það verður fundur í dag með túlk. En fólk hefur kannski þá reynslu úti í heimi að hús geti hrunið þegar koma skjálftar. Fólki finnst það ekki endilega öruggt í húsunum,“ segir Elínborg.