Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Spenna myndast þegar kvika flæðir inn í jarðlög

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Það er samdóma álit vísindamanna að kvika flæði nú inn í jarðlög undir Fagradalsfjalli. Við það myndast spenna í norður-suður sprungum austan og vestan við umbrotasvæðið. Þegar næg spenna hefur myndast hrökkva sprungurnar og við það koma skjálftahrinur. Þessi útskýring á skjálftavirkninni kemur fram í nýrri tilkynningu frá Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

Eftir skjálftahrinur kemur slökun og tímabil minni skjálfta þar til spennan verður aftur of há og svipuð hrina kemur á ný. Gera má ráð fyrir því að ef gangurinn heldur áfram að myndast næstu daga og vikur megi eiga von á slíkum áhlaupum og jarðskjálftahviðum nokkrum sinnum.

Tugir skjálfta stærri en þrír hafa orðið í umbrotum á Reykjanesskaga frá því að virkni jókst þar enn í gærkvöld. Sterkasti skjálftinn í þessari hviðu varð rétt eftir tvö í nótt og mældist 5,0. Milli tvö og þrjú mældust nokkrir yfir fjórum að stærð. 

Óróapúlsinn sem mældist upp úr miðnætti hefur ekki tekið sig upp aftur, og hann var töluvert minni en óróapúlsinn sem mældist á miðvikudag. Salóme Jórunn Bernharðsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að nokkuð hafi dregið úr skjálftavirkninni frá því í nótt.