Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Óku um til að finna ekki fyrir skjálftum

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Vanlíðan Grindvíkinga hefur aukist með áframhaldandi jarðskjálfum sem vekja fólk um nætur. Margir Grindvíkingar fóru úr bænum um helgina til að losna undan jarðhræringum. Þá settust margir út í bíl og óku um til að finna síður fyrir skjálftum. „Þetta er búið að vera svolítið langt, þetta er orðin svolítil þreyta á þessu. Nóttin í nótt var alls ekki góð. Fólk er orðið áhyggjufullt og ég skil það vel,“ segir Hjálmar Hallgrímsson, formaður bæjarráðs og lögreglumaður.

Ekkert lát virðist vera á jarðskjálftum á Reykjanesskaga og laust eftir miðnætti mældist óróapúls sem stóð þó stutt. Margir Grindvíkingar vöknuðu við skjálfta klukkan tvö í nótt sem var fimm að stærð. Á næsta klukkutímanum urðu fjórir skjálftir sem voru fjórir eða meira að stærð og tugir skjálfta yfir þremur. Í gær var mest virkni við Fagradalsfjall en núna hefur virknin teygt sig nær Grindavík. Ekki er vitað um tjón.

Nýjar gervihnattamyndir og GPS-gögn benda til þess að kvikuhreyfingar á Reykjanesskaga séu áfram bundnar við umbrotasvæðið milli Fagradalsfjalls og Keilis. Myndirnar bárust í morgun og unnið hefur verið úr þeim í dag. Jarðskjálftavirkni síðasta sólarhring tengist kvikugangi sem er að myndast á umbrotasvæðinu. Vísindaráð almannavarna kemur saman á morgun til að fara betur yfir gögnin og mælingar

Vaknaðir þú klukkan tvö í nótt?

„Já, ég er eiginlega búinn að vera vakandi í alla nótt. Þetta er búið að hristast vel. Maður er búinn að vera með sjóriðuna í alla nótt,“ segir Evert Rúnar Snorrason, íbúi í Grindavík. Hann var að leggja af stað í gönguferð, þegar fréttastofa tók hann tali í morgun, til að þreyta sig svo hann gæti sofnað.

„Þetta var bara frekar ónotalegt en svo gekk þetta bara yfir og maður sofnaði aftur eftir klukkutíma,“ segir Ragnar Pálsson.

„Ég svaf minna en hann alla vega. Ég var alveg vakandi þangað til þetta gekk yfir. Ég var vakandi þangaði til þetta gekk yfir, kannski svona um hálf fimm þá held ég hafi sofnað,“ segir Sigurveig Önundardóttir.

„Þetta er búið að vera svolítið langt, þetta er orðin svolítil þreyta á þessu. Nóttin í nótt var alls ekki góð. Fólk er orðið áhyggjufullt og ég skil það vel,“ segir Hjálmar Hallgrímsson, formaður bæjarráðs og lögreglumaður.

„Búið að vera í tíu daga, síðan þetta var á miðvikudagsmorguninn, þá er þetta búið að vera dálítið stöðugt. Það er náttúrulega lýjandi og það er mjög lýjandi ef við eigum að vakna mikið á nóttunum,“ segir Elínborg Gísladóttir.

„Við vöknuðum þarna um tvöleytið og vöktum bara í tvo tíma sirka með öndina í hálsinum,“ segir Þórunn Ólafsdóttir. 

Fannst þú fyrir þessum skjálftum í nótt?

„Nei, ég á þann möguleika að fara í Mosfellsbæ og gista þar,“ segir Theódór Vilbergsson.

Þannig að þú ert á flótta?

„Það má segja það sko. Mér líkar ekki við þennan hrikalega titring,“ segir Theodór.

„Hins vegar sá ég af því að ég bý við umferðargötu að það var kannski meiri umferð klukkan þrjú heldur en vanalega. Svo ég held að fólk hafi farið á rúntinn. En ég vissi að mjög margir fóru í bústað á föstudaginn,“ segir Elínborg.

Ruben van Zuijlen og Marlous Oomen eru frá Hollandi en búa og starfa í Grindavík. Þau vöknuðu bæði í nótt og urðu dálítið smeyk. Þá heyrði allt hristast í íbúðinni. Hollensku skötuhjúin hafa aðeins fengið textaskilaboð í íslensk símanúmer sín og aðeins á íslensku. 

„Það er góð ábending. Við þurfum að fara yfir það,“ segir Hjálmar.

„Ég viðurkenni það að mér finnst þetta komið nóg. Ef þú getur skilað þarna niður til hans að þetta sé komið nóg í bili,“ segir Ólafur Ragnar Sigurðsson.