Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Nýtt líf í vel hönnuðum bensínstöðvum

Mynd: Pexels / Pixabay

Nýtt líf í vel hönnuðum bensínstöðvum

07.03.2021 - 09:00

Höfundar

Samgöngur eru að taka stakkaskiptum um þessar mundir, í Reykjavík og í borgum um allan heim.

Borgarlínan verður senn að veruleika, æ fleiri hjóla; rafhlaupahjól og önnur léttfarartæki hafa skotið upp kollinum, og þeir sem nota bíla velja í síauknum mæli aðra orku en jarðefnaeldsneyti. Rafmagns-, tvinn-, tengiltvinn- og metanbílar, einu nafni nýorkubílar, voru meira en helmingur allra nýskráðra bíla í fyrra.

Hinir nýju rafmagnsbílar þurfa áfram sömu innviði og bensínbílarnir: Götur, hraðbrautir, umferðafléttur og bílastæði, en þau umferðarmannvirki sem helst verða gagnslaus á rafbílatímum eru bensínstöðvarnar. Þeim á eftir að fækka fljótt en borgarráð Reykjavíkur samþykkti árið 2019 að fækka bensínstöðvunum um helming innan sex ára.

Hluti af byggingarsögunni

Þó að flestar bensínstöðvar í dag séu orðnar að sjálfsafgreiðslustöðvum með sjoppum í stöðvarhúsinu og útlitslega að hálfgerðum auglýsingaskiltum með skærum ljósum og litum, þá eru margar þeirra, ekki síst þær eldri, bæði fallegar og vel hannaðar. 

„Fyrstu bensínstöðvarnar voru bara ein dæla og skúr einhvers staðar í miðbænum. En eftir að bílaeign verður almenn í kjölfar seinni heimsstyrjaldar, á 5. og 6. áratugnum, þá fara olíufélögin að reisa sérstakar og vandaðar bensínstöðvar við helstu leiðir út úr bænum, helstu umferðaræðar. Í mörgum tilvikum fengu félögin virta arkitekta til að hanna þessar stöðvar. Sumar af þessum byggingum voru mjög vandaðar og mikil alúð lögð í hönnun þeirra. Þetta er gerð af byggingum sem er merkur hluti af sögu 20. aldar og líka byggingarsögu okkar,“ segir Pétur Ármannsson, arkitekt.

Hann nefnir til dæmis bensínstöðvarnar Nesti í Fossvogi og við Elliðaár eftir Manfreð Vilhjálmsson sem nú eru horfnar og stöðvarnar sem Skeljungur fékk Þór Sandholt til að teikna og risu við Laugarveg og Skógarhlíð.

Nýtt líf í bensínstöðvum

En verður hægt að nýta þessar sérstöku byggingar í eitthvað annað? Bensínstöðvarnar eru raunar nú þegar farnar að fá ný hlutverk, veitingastaðir, bílalúgur, blómabúð. Í gamalli bensínstöðvarbyggingu Olís við Háaleitisbraut hefur reiðhjólaverslunin Berlín verið opnuð. Kannski tímanna tákn að bensínið víki fyrir reiðhjólinu.

„Það er ótrúlega mikið af fólki sem hjólar hér og labbar fram hjá. Það kom mér bara á óvart hvað það er ótrúlega mikil umferð hér í kring. Það hentar vel því við viljum vera samfélag eða miðpunktur fyrir fólk sem er að hjóla, og það er sannarlega hægt að vera það hér. Við erum með gott bílaplan, við erum með kæli sem fylgdi með bensínstöðinni og við fylltum á, við erum með kaffivél. Þetta býður upp á marga skemmtilega möguleika,“ segir Jón Óli Ólafsson, eigandi Berlínar.

Tengdar fréttir

Reykjavíkurborg

Borgin ætlar að fækka bensínstöðvum um helming

Umhverfismál

Örlög bensínstöðva á rafbílaöld