Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Hægviðri á landinu í dag

07.03.2021 - 08:04
Mynd með færslu
 Mynd: Ásrún Brynja Ingvarsdóttir - RÚV
Veðurstofan spáir hægviðri á landinu í dag og víða léttskýjuðu en lítilsháttar vætu norðvestantil framundir hádegi. Vaxandi suðaustanátt og þykknar upp suðvestanlands seint í kvöld. Hiti verður á bilinu 0 til 6 stig en um frostmark norðaustanlands.

Suðaustanátt 10-15 m/s og rigning með köflum sunnan- og vestantil í fyrramálið en hægari vindur og úrkomulaust norðaustanlands. Snýst í suðvestan 5-13 m/s eftir hádegi með skúrum eða slydduéljum á Suður- og Vesturlandi en rigningu eða slyddu um norðan- og austanvert landið. Dregur úr vindi og kólnar heldur annað kvöld.

Á þriðjudag má búast við austlægri eða breytilegri átt 3-10 m/s og björtu með köflum en dálítilli úrkomu við  norðausturströndina. Með deginum fer norðaustnáttin vaxandi og þykknar upp suðaustantil um kvöldið. Hiti verður í kringum 0-4 stig syðst en annars um frostmark. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV