Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

„Ég er dálítið misheppnuð poppstjarna“

Mynd: Vikan / RÚV

„Ég er dálítið misheppnuð poppstjarna“

07.03.2021 - 13:14

Höfundar

Kristín Jónsdóttir jarðskjálftafræðingur hefur því sem næst verið daglegur gestur á skjám landsmanna síðan skjálftahrinan á Reykjanesskaga hófst. Áður en hún gerðist jarðhræringastjarna átti hún þátt í að skapa eina af fallegri dægurlagasmíðum 10. áratugarins.

Kristín Jónsdóttir var í hljómsveitinni Unun þegar hún var rétt að byrja, ásamt mektarpoppurunum Dr. Gunna og Þór Eldon. „Ég var að syngja í Óðríki Algaula,“ segir Kristín, sem er sönglagakeppni í Menntaskólanum við Hamrahlíð. „Þeir voru í dómnefndinni, svo komu þeir á eftir og sögðu: Vilt þú ekki koma í bandið?“

Kristín sagði frá tónlistarferlinum í Vikunni með Gísla Marteini á RÚV. Hún segist, af mikill hógværð, þó vera misheppnuð poppstjarna. „Ég reyndi en ég held að ég sé á réttum stað í dag.“

Kristín söng ásamt Rúnari Júlíussyni í fyrsta lagi hljómsveitarinnar, Hann mun aldrei gleym‘enni, sem kom út árið 1994 og sló í gegn. „Ég ætlaði að verða poppstjarna en Heiða var miklu betri í þessu og ég er mjög sátt við það,“ segir hún, en Ragnheiður Eiríksdóttir, eða Heiða í Unun eins og flestir þekkja hana, tók við hljóðnemanum í sveitinni.

 

Við þetta er að bæta að Kristín var einnig í hljómsveitinni Múldýrinu, ásamt Prins Póló, Einari Sonic, Kristni Gunnari Blöndal og Helga Erni Péturssyni. Gaf sveitin út sjötommu árið 1996.

Tengdar fréttir

Tónlist

Nýtt jólalag með Birgittu Haukdal og Þórólfi Guðnasyni

Tónlist

Þórólfur syngur dúett með syninum: Ég er eins og ég er

Menningarefni

Líf ertu að grínast?