Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Dómsmál ráðherra rammpólitísk og vond ákvörðun

Mynd: Kristinn Þeyr / RÚV
Þingmenn stjórnarandstöðunnar segja málaferli íslenska ríkisins til að láta ógilda úrskurð um að menntamálaráðherra hafi brotið jafnréttislög, rammpólitísk. Þingmaður Viðreisnar segir málið einungis þjóna persónulegum hagsmunum ráðherra og þá er áfrýjun dómsins, sem ríkið tapaði á föstudag, harðlega gagnrýnd. Þingmaður Samfylkingar segir ábyrgðina liggja hjá ríkisstjórninni í heild og þingmaður Pírata segir málsmeðferð ráðherra ólíðandi og að hún eigi að biðjast afsökunar.

Kjark og þor til að standa með sínum ákvörðunum

„Ég er ekki sammála þessum úrskurði. Ef það er orðið svo að stjórnmálamenn séu orðnir hræddir við það að standa með sannfæringu sinni, af hverju eru þeir þá í stjórnmálum? Er það að beita hörku að fara fram á ógildingu í máli sem maður er ekki sammála? Ég spyr bara: Viljum við hafa stjórnmálamenn eða stjórnmálakonur sem hafa ekki kjark eða þor til að standa með því sem þau gera? Mitt svar er einfalt: Nei.”
- Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra á Alþingi 17. nóvember 2020

Engin svör og engin viðbrögð

Enginn af þeim ráðamönnum ríkisstjórnarinnar sem fréttastofa hefur reynt að ná tali af síðan að dómurinn féll fyrir hádegi á föstudag, hafa svarað ítrekuðum viðtalsbeiðnum og skilaboðum til þess að koma í viðtal um dóminn. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og ráðherra jafnréttismála, hafa engu svarað og Lilja Alfreðsdóttir ekki heldur, svo þannig að málið virðist vera frekar viðkvæmt pólitískt. Þau skilaboð fengust frá ráðuneyti Lilju á föstudag að hún mundi ekki veita viðtal um málið á meðan það er í áfrýjunarferli fyrir Landsrétti.

Það kemur kannski ekki á óvart að þingmenn stjórnarandstöðunnar viljugri til að segja sína skoðun á dómnum, áfrýjuninni og málinu í heild. 

Mynd með færslu
Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins. Mynd: Kristinn Þeyr - RÚV

Andrés Ingi Jónsson - Píratar

„Þetta er slæm pólitík vegna þess að fólk sem vill leita réttar síns í framtíðinni hugsar sig tvisvar um. Það er ekki fyrir hvern sem er að standa í tveggja ára málaferli þegar það er brotið á viðkomandi og fá bara fullan þunga íslenska ríkisins gegn sér.”

Málsmeðferð ráðherra var bara ólíðandi. Og það hefði náttúrulega bara átt að láta þar við sitja og biðjast afsökunar í stað þess að fara í málsókn gegn óbreyttum borgara.

„Það er væntanlega þægilegra fyrir þau að þurfa ekki að tala um þetta fyrr en eftir eitt ár, hinum megin við kosningar. En það er ekki kjarkaðasta nálgunin. Þau eiga auðvitað að geta staðið með þessari rammpólitísku málsókn. En það er ekki hægt að þegja um þetta mál að eilífu. Þetta er mál sem hún þarf að svara fyrir og þau fleiri í ríkisstjórninni.”

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr - RÚV

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Samfylking)
„Dómur héraðsdóms staðfestir það að ráðherra í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur gerst brotlegur við jafnréttislög. Það eru mjög slæm skilaboð til kvenna sem vilja leita réttar síns að þær eigi von á lögsókn frá ríkisstjórninni og ríkinu.”

Katrín Jakobsdóttir er jafnréttisráðherra og hún hlýtur að taka þátt í þessari ákvörðun. Hún er verkstjóri ríkisstjórnarinnar. Þannig að ég held að þetta sé ekki mál eins ráðherra. Þetta er ráðherra í ríkisstjórn.

„Síðan verður að hugsa heildarmyndina, hvort jafnréttisparadísin Ísland sé svona. Það er að segja að það þurfi að mæta af hörku, konum sem vilja leita réttar síns.”

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr - RÚV

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir - Viðreisn
„Það kom á óvart að ákvörðun um áfrýjun hafi verið tekin á nokkrum klukkutímum. Það er útilokað mál að það liggi þá einhver lagaleg rök að baki því að menn geti rýnt og greint dóm og komist að þeirri niðurstöðu að það eigi að áfrýja. Þannig að það er í mínum huga að það er algjörlega klárt mál að það er ekkert annað en pólitík á bak við það að fara í það.”

Þessi málarekstur er í nafni íslenska ríkisins en þjónar persónulegum hagsmunum ráðherrans. Mér finnst ljót pólitík í því.

„Ég get alveg skilið að Framsóknarmenn standi ekki í röðum eftir því að fá að fara í viðtöl og svara fyrir þessa pólitík. En ég vil líka minna á það að Lilja Alfreðsdóttir var í viðtölum um þetta mál á meðan það var í gangi í héraði.”