Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Allir tónleikagestir í Hörpu á föstudagskvöld skimaðir

07.03.2021 - 16:49
Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti - RÚV
Tveir hafa greinst með breska afbrigðið síðustu tvo daga og smitrakning nær til tónleika í Hörpu föstudaginn 5. mars. Þau tíu sem sátu næst þeim smitaða þurfa að fara í sóttkví en almannavarnir mælast til þess að allir tónleikagestir mæti í skimun á morgun, mánudag. Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu, segir að engar breytingar verði gerðar á dagskrá Hörpu vegna þessa.

Hún segir vissulega vonbrigði að það þurfi að grípa til ráðstafana sem þessa, loksins þegar hægt er að halda stóra tónleika. „Þetta eru náttúrulega ekki símtölin sem maður vill fá, en eins og allir vita er þessi veira enn í samfélaginu. Og þess vegna leggjum við ríka áherslu á að vera með allar sóttvarnir í lagi og biðlum til fólks að passa upp á sig,“ segir hún í samtali við fréttastofu. 

Starfsfólk hússins, þarf sumt þeirra að fara í sóttkví?

„Það gildir það sama og um gesti. Það starfsfólk sem starfaði í húsinu þarf að fara í skimun. Það er klárt, út frá ákvörðun smitrakningarteymisins, að það eru bara þessir sem næst sátu þeim smitaða sem þurfa að fara í sóttkví,“ segir Svanhildur.

Nú eru aftur stórir tónleikar í húsinu í kvöld fyrir rúmlega 700 manns. Verða einhverjar breytingar á?

„Nei, í rauninni ekki.  Við erum að skipuleggja allt nákvæmlega í samræmi við þær reglur sem eru í gildi og erum í góðu samstarfi við sóttvarnalækni. Það eru mismunandi inngangar, sérstök sóttvarnahólf, salerni fyrir öll hólf, grímuskylda á viðburðum, sótthreinsað í öllum salnum og góð loftræsting. Við munum ekki gera neitt öðruvísi og höfum haft samráð við almannavarnir um það hvort sé tilefni til að breyta einhverju. Og þau eru skýr í sínum svörum að þau telja það ekki vera. Þannig að við biðlum til fólks að gæta áfram að sínum sóttvörnum og passa upp á nálægðarmörk,“ segir hún.