Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Vorum neyddir til að selja reksturinn“

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Fyrrverandi eigandi Mjólku og Mjókurbúsins Kú fagnar því að Hæstiréttur hafi staðfest ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um að sekta Mjólkursamsöluna fyrir samkeppnislagabrot. Hann telur brot MS hafa valdið sér miklu tjóni og ætlar að krefjast skaðabóta. 

Margra ára saga

Níu ár eru frá því Samkeppniseftirlitinu barst fyrst ábending um brot Mjólkursamsölunnar og fimm ár síðan Samkeppniseftirlitið það ákvað að sekta MS um samtals 480 milljónir króna. Í vikunni staðfesti Hæstiréttur sektina. MS er sagt hafa misnotað markaðsráðandi stöðu sína með því að selja hrámjólk á hærra verði til keppinauta en til eigin framleiðsludeildar. 

„Þetta hefur tekið mjög á fjölskylduna“

Ólafur M. Magnússon er einn þessara keppinauta sem mátti greiða meira fyrir mjólkina. Hann rak Mjólku á árunum 2005 til 2009 og síðar Mjólkurbúið Kú á árunum 2010 til 2017. „Við vorum í raun neyddir til að selja okkar rekstur til að bjarga þeim skuldbindingum sem við stóðum í gagnvart lánadrottnum og starfsfólki, þannig að þetta hefur tekið mjög á fjölskylduna.“

Segir málinu ekki lokið

Hann fagnar dómnum. „Og það er alveg ljóst í dómsorði Hæstaréttar að þeir hafa brotið mjög alvarlega gegn okkur og það er líka sérstakt að Mjólkursamsalan sjálf hefði ekki getað búið við þá verðlagningu sem þeir ætluðu okkar fyrirtækjum að búa við, þá hefði hún skilað umtalsverðu tapi og það kemur bara sérstaklega fram í dómi Hæstaréttar. Er þessu máli lokið af þinni hálfu? Nei, við erum búin að höfða skaðabótamál fyrir hönd þeirra félaga sem við rákum gagnvart Mjólkursamsölunni og það verður málflutningur í því máli nú í apríl,“ segir Ólafur. Baráttan hans eigi því líklega eftir að taka einhver ár í viðbót. 

Mynd með færslu
 Mynd: rúv

 

Í góðri trú

Mjólkursamsalan lýsti því yfir í gær að hún hafi starfað í góðri trú vegna undanþága sem hún hafði frá samkeppnislögum. Ólafur segir stjórnvöld bera mikla ábyrgð. Þau þurfi að afleggja undanþáguheimildirnar. „Og það má alls ekki taka þær upp gagnvart öðrum búgreinum eins og kjötframleiðslu.“

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV