Sex skjálftar af stærðinni þrír og þar yfir hafa orðið á umbrotasvæðinu á Reykjanesi frá miðnætti. Þrír þeirra urðu rétt upp úr klukkan hálfþrjú í nótt, 3,0, 3,1 og 3,3 að stærð, og sá fjórði rétt fyrir þrjú. Sá mældist 3,0. Tólf mínútur yfir þrjú varð svo skjálfti sem mældist 3,3 og rétt tæpri klukkustund síðar reið öflugasti skjálfti næturinnar yfir, sá mældist 3,7 og fannst greinilega hér í Útvarpshúsinu. Upptök allra þessara skjálfta eru í námunda við Fagradalsfjall.