Mynd: Veðurstofa Íslands

Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.
Rúmlega 2.800 skjálftar á föstudag
06.03.2021 - 00:36
Klukkan 21.13 mældist skjálfti af stærðinni 3 við Fagradalsfjall, sá fyrsti sem náði þeirri stærð síðan um hádegi, þegar sex slíkir riðu yfir Reykjanesskagann. Rétt fyrir hálf tólf í kvöld varð svo skjálfti sem reyndist 3,5 að stærð. Veðurstofan greindi rúmlega 2.800 skjálfta á umbrotasvæðinu frá miðnætti til miðnættis, föstudaginn 5. mars. Fjórtán þeirra voru yfir þrír af stærð, þar af einn stærri en fjórir. Hann varð laust fyrir hádegi og mældist 4,1.
Ástandið á skjálftasvæðum á Reykjanesskaga er annars óbreytt frá því sem verið hefur, sagði Bryndís Ýr Gísladóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands rétt fyrir miðnætti; enginn gosórói en mikil skjálftavirkni. Í hrinunni allri hafa mælst yfir 22.000 skjálftar, sá stærsti þeirra 5,7 að stærð.