Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Reiði yfir því að fá rafmagnsleysi ofan í jarðskjálfta

Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Reiði er meðal Grindvíkinga yfir því að hafa þurft þola rafmagnsleysi í rúma níu klukkutíma í gær ofan í jarðskjálfta síðustu tíu daga. Á fjórða hundrað fylgdust með íbúafundi í beinu streymi í dag og tugir mættu á fundinn. „Ég er búinn að vera hræddari við þetta núna. Óhugnalegt bara. Þetta er svo nálægt Grindavík, svo harkalegt. Ég vakna oft á nóttunni. Ég næ ekki miklum svefni. Og rafmagnsleysið var ekki að gera þetta betra, heldur betur ekki,“ segir Teitur Leon Gautason, íbúi í Grindavík.

Skjálftarnir frá miðnætti á Reykjanesskaga eru að nálgast tvö þúsund og hefur virknin að mestu haldið sig við Fagradalsfjall en kvikugangur myndaðist þar undir. Snarpasti skjálftinn í dag var þrír komma sex og varð snemma í morgun. Ekki hefur mælst gosórói en það eru heldur ekki nein merki þess að jarðhræringum sé að linna.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Eldfjallafræði og náttúruvá - RÚV

Vísindamenn við Háskóla Íslands gáfu í dag út nýtt líkan þar sem birtir eru nokkrir líklegir staðir þar sem hraun gæti flætt upp á yfirborðið ef til eldgoss kemur. Rauðu svæðin eru líklegustu staðirnir en bleiku eru ólíklegri. 

Þrátt fyrir jarðskjálfta og hugsanlega einhver eldgos í óljósri framtíð gengur lífið sinn vanagang í Grindavík. 

Hvernig upplifirðu þessa jarðskjálfta?

„Þeir eru miklu verri heldur en þetta var í fyrra. Þeir eru svo nálægt Grindavík. Ég er búinn að vera miklu hræddari núna heldur en seinast. Það er bara búið að vera mun líklegra að gosið byrji. Þannig að ég er búinn að vera hræddari við þetta núna. Óhugnalegt bara. Þetta er svo nálægt Grindavík, svo harkalegt. Ég vakna oft á nóttunni. Ég næ ekki miklum svefni. Og rafmagnsleysið var ekki að gera þetta betra, heldur betur ekki,“ segir Teitur Leon Gautason, íbúi í Grindavík.

„Þetta er náttúrulega búið að vera frekar erfitt oft á tíðum. Maður finnur mest á krökkunum á heimilinu. Maður þraukar þetta alveg. Það er búið að vera aðeins rólegra upp á síðkastið. En maður þorir ekki að anda léttara samt,“ segir Anna Kristín Kristjánsdóttir.

Grindvíkingum var boðið til íbúafundar í dag. Á fjórða hundrað fylgdust með fundinu í beinu streymi. En rafmagnsleysið í gær í rúma níu tíma var sumum ofarlega í huga. 

„Mér alveg blöskraði í gær með þetta rafmagnsleysi, ég get bara ekki að því gert. Rafmagnsleysi ofan í hitt. Konunni minni er ekkert vel við jarðskjálftana en þegar rafmagnið fer líka. Það hlýtur að vera skelfilegt fyrir alla, fullorðið fólk,“ segir Sigurgeir Sigurgeirsson. 

Ertu búin að upplifa þessa jarðskjálfta?

„Já, mér finnst þeir hræðilegir. Maður er ekki vanur þessu,“ segir Kolbrún Þorsteinsdóttir sem flutti til Grindavíkur fyrir tæpu ári.

Svo kom rafmagnslaust í gær?

„Já, ég fékk vinafólk mitt frá Akureyri. Þau fengu ekkert kaffi nema eldgamalt. En ég var með góða tertu. Það bjargaði því,“ segir Kolbrún.

Hvernig fannst þér hljóðið vera í bæjarbúum á þessum fundi?

„Spurningarnar voru þess eðlis og umræðan að það var þungt í fólki. Það var reiði. Í fyrri hlutanum var rætt um þetta rafmagnsleysi sem var hér í gær og menn voru reiðir yfir því að í nútímasamfélagi geti fólk verið rafmagnslaust svona lengi,“ segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá embætti ríkislögreglustjóra.

„Það var mjög óheppilegt og alvarlegt þetta atvik í gær þegar rafmagnið fór allt að tíu klukkutíma af hluta bæjarins,“ segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur.

 

Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV

Hvernig metur þú stöðuna, heldurðu að það fari að gjósa hraungosi á næstu vikum?

„Ég veit það ekki. Eins og er þá er smáskjálftavirkni í gangi. Þetta er alls ekki búið. Það er mjög nauðsynlegt að fylgjast með henni. En hvort þetta rénar bara eða hvort það koma fleiri spýjur, það er ómögulegt að vita,“ segir Kristín Vogfjörð, sérfræðingur og rannsóknastjóri á Veðurstofu Íslands. 

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV