Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

MAX-vélarnar í loftið eftir tveggja ára kyrrsetningu

06.03.2021 - 18:30
Innlent · Boeing · flug · Icelandair · viðskipti
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr - RÚV
Icelanda­ir ætl­ar að hefja farþegaflug með tveimur MAX-vél­um nú í mars. Fyrsta flugið var í dag með starfsmönnum Icelandair en svo verður vélinni flogið til Kaupmannahafnar á mánudag. Forstjórinn segir vélarnar geta gjörbylt rekstri fyrirtækisins.

Kyrrsettar í tvö ár vegna alvarlegra galla

MAX vélar Boeing voru kyrrsettar um allan heim í mars 2019 vegna síendurtekinna og alvarlegra bilana. Tvær hröpuðu til jarðar og létust um 350 manns í slysunum. Eftir að alvarlegur galli í hugbúnaðinum kom í ljós í byrjun síðasta árs var allri framleiðslu hætt. Boeing greiddi hátt í þrjá milljarða dollara í sekt. Það var svo ekki fyrr en í nóvember síðastliðnum sem MAX vélarnar fengu grænt ljós á ný fyrir flugtak. 

Icelandair tapaði tæpum 400 milljónum á fyrsta hálfa mánuðinum þegar allar MAX vélar fyrirtækisins voru kyrrsettar fyrir tveimur árum. Búið er að afhenda sex vélar og aðrar sex eru í pöntun. Og í dag fór ein í loftið í fyrsta sinn með farþega innanborðs. 

Gæti verið gjörbylting

„Þetta breytir mjög miklu því þetta eru hagkvæmustu flugvélar sem hægt er að fá. Og munu búa til tækifæri fyrir okkar leiðarkerfi sem að 757 vélarnar og 767 vélarnar bjóða ekki upp á. Meiri tíðni á einhverja staði og hugsanlega einhverja nýja áfangastaði sem eru arðbærir á þessum vélum en eru ekki arðbærir á 75-unum, þannig að við erum bjartsýn á að þetta verði gjörbylting á okkar rekstri til framtíðar,” segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.  

Flugið í dag varði í um klukkustund og var flogið með starfsmenn Icelandair og fjölmiðlafólk.  

Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair hafa nú tólf flugfélög í heiminum tekið MAX vélarnar í rekstur og frá því í nóvember hafa þær farið í rúmlega 9 þúsund flugferðir.