Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Hyggst bregðast við stórauknu atvinnuleysi ungs fólks

06.03.2021 - 11:31
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Tvöfalt fleira ungt fólk glímir við atvinnuleysi nú, en á sama tíma í fyrra. Stúdentar hafa áhyggjur af stöðunni. Félagsmálaráðherra segir ekki útlit fyrir að björtustu spár um ferðaþjónustuna rætist í sumar og ætlar að kynna aðgerðir í næstu eða þarnæstu viku.

 

Sköpuðu 3000 sumarstörf og sum gengu af

Ölgerðin, Landspítalinn, Strætó, Íslandspóstur. Þessi fyrirtæki og fleiri óska nú eftir sumarstarfsfólki og það ætti að vera nóg af umsækjendum. Í lok janúar voru 2449 á aldrinum 18-24 ára í leit að vinnu, á sama tíma í fyrra taldi hópurinn 1244. Þá var heimsfaraldurinn ekki enn farinn að teygja anga sína hingað. Þegar leið á síðasta vor fór faraldurinn að herða takið á atvinnulífinu og fljótlega varð ljóst að ferðamenn myndu lítið láta sjá sig um sumarið. Stjórnvöld réðust þá í átak og sköpuðu yfir 3000 sumarstörf fyrir námsmenn; hjá sveitarfélögum og ríkisstofnunum, meðal annars við mauratalningar og tölvuöryggismál. Rúmlega tveimur milljörðum var varið til átaksins en þegar á hólminn var komið reyndist ekki þörf á öllum störfunum, nokkur hundruð störf gengu af. Samt sögðust 40% námsmanna, sem svöruðu könnun Stúdentaráðs Háskóla Íslands seint í maí í fyrra vera án atvinnu. 

 

Andreas Guðmundsson og Marco Mancini rannsaka maura á Íslandi.
 Mynd: RÚV
Andreas Guðmundsson og Marco Mancini fengu síðastliðið sumar vinnu við að rannsakamaura á Íslandi.

 

Segjast falla milli skips og bryggju

Í fyrra var líka ákveðið að hækka framlag til Nýsköpunarsjóðs námsmanna. Sjóðurinn auglýsti eftir umsóknum í desember og nú í febrúar var umsóknarfresturinn framlengdur vegna þess hversu fáar umsóknir höfðu borist. Þetta er svolítið tvíbent en stúdentar hafa áhyggjur af stöðunni og segjast falla á milli skips og bryggju í kerfinu, þeir eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum, jafnvel þó þeir hafi unnið með skóla.

Reiknar ekki með því að ferðaþjónustan nái flugi

Það eru ekki bara ungir námsmenn sem glíma við atvinnuleysi heldur ungt fólk yfirleitt, í heild hefur langtímaatvinnuleysi líka aukist og hætt við því að stórir hópar falli út af bótum á árinu. Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra, segir að við þessu verði brugðist. „Við erum bara að fara yfir þessi mál almennt, það er alveg ljóst að kórónufaraldurinn er að dragast aðeins á langinn og næsta sumar, við reiknum ekki með því að ferðaþjónustan fari af stað af því afli sem björtustu spár gerðu ráð fyrir og þess vegna teljum við mikilvægt að stíga inn í, bæði gagnvart þeim sem eru atvinnulausir og eins þeim sem hafa stólað á það að geta fengið fjölbreytt sumarstörf á vinnumarkaði,“ segir Ásmundur Einar. 

Hann vill ekki tjá sig um hversu mörg störf verði sköpuð í ár eða hversu háum fjárhæðum verði varið til átaksverkefna, segir að aðgerðir í atvinnumálum verði kynntar einhvern tímann á næstu tveimur vikum. Þá sé verið að skoða hvernig atvinnuleysistryggingakerfið og námslánakerfið geti spilað betur saman.