Heyrir oft í símanum: „Pabbi koma heim“

Mynd: Ari Magg / Ari Magg

Heyrir oft í símanum: „Pabbi koma heim“

06.03.2021 - 08:18

Höfundar

„Ekkert af mínum ævintýrum, hvorki í tónlistinni né lífinu, væri mögulegt án Höllu,“ segir Víkingur Heiðar Ólafsson um eiginkonu sína Höllu Oddnýju Magnúsdóttur, viðburða- og skipulagsstjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sem á stóran þátt í sköpunarferli hans og ákvörðunum. Saman eiga þau tveggja ára dreng og það er annar á leiðinni í vor. Víkingur hefur atvinnu af því að ferðast um heiminn og spila á tónleikum en fagnar því að geta nú stýrt tíma sínum betur og verið með fjölskyldunni.

Víkingur Heiðar Ólafsson leikur á langþráðum tónleikum í Hörpu um helgina. Þeir fyrstu voru í gærkvöldi klukkan átta, á sama tíma í kvöld eru aukatónleikar og svo aðrir á sunnudag og þriðjudag. „Tilfinningin að vera að fara að spila í Hörpu er geggjuð. Maður þorir varla að trúa því. En nú er held ég engin spurning að þetta verði,“ segir Víkingur í samtali við Sigurlaugu Margréti Jónasdóttur í Segðu mér á Rás 1. Miðar á tónleikana fóru fyrst í sölu haustið 2019 og þeir áttu að fara fram á síðasta ári en vegna heimsfaraldursins varð að fresta þeim þar til nú.

Heimsendalegt að spila á síðustu tónleikum fyrir lokun

Víkingur Heiðar óttaðist lengi að það þyrfti að fresta tónleikunum enn einu sinni en kveðst þakklátur örlögunum fyrir að það sé loksins hægt að láta verða af þeim. „Þetta er skemmtilegt því þetta eru fyrstu stóru tónleikarnir eftir að allt opnar aftur með einhverju móti.“ Víkingur lék víða dagana áður en flestu var lokað í Evrópu og þá hafi hann upplifað hina hliðina, að mæta áhorfendum sem komu að horfa á síðustu tónleikana í bili. „Það hefur verið mjög heimsendalegt og sérstakt.“

Fólk klappaði lengi og vildi ekki yfirgefa tónlistarhúsið

Í Berlin Konserthaus lék Víkingur til að mynda á tónleikum í október sem voru einir af þeim síðustu áður en allt þýskt tónlistarlíf lagðist meira og minna af. „Og það er óhugsandi í Þýskalandi. Það er svo mikil tónlistar- og menningarþjóð,“ segir Víkingur. Þegar hann lauk við að leika á flygilinn vildu áhorfendur helst ekki fara. „Það sat inni í salnum og klappaði. En það var ekki beint held ég að klappa fyrir mér, ég átti alveg fínt kvöld, en það var eitthvað annað. Það var heimsendablær yfir þessu og maður fann hvað þetta var sorglegt og fallegt. Það skiptir miklu máli að fólk fái að koma saman og upplifa saman. Það er mjög djúpt í mannlegu eðli.“ 

Ekkert til sem kallast undrabarn

Víkingur er, eins og flestir vita, kominn í hóp fremstu einleikara á heimsvísu en hann segist ekki hafa verið undrabarn í þeim skilningi. Hann segir að fjöldi barna séu sérstaklega flink í tónlist um sex til sjö ára aldur og því sé ekkert lengur til sem kallast undrabarn. „Ef foreldrar þeirra láta þau æfa sig frá því þau eru þriggja ára og taka af þeim ákveðið frelsi er hægt að búa til undrabarn,“ segir Víkingur.

Áttu lítið en keyptu blessunarlega dýran flygil

Sjálfur var hann þó flinkastur í Tónmenntaskólanum á píanó og vissi það og var duglegur að æfa sig, svo duglegur að foreldrum hans þótti jafnvel stundum nóg um. „Ég var eiginlega frekar lattur til að æfa mig en hitt því mér fannst svo gaman að spila að það var meira svona: Farðu nú út að leika þér. Gerðu eitthvað annað.“ En Víkingur hlýddi því sjaldnast og hélt áfram að leika á flygilinn.

Hann er í dag afar þakklátur foreldrum sínum fyrir að hafa kynnt honum flygilinn snemma. Þegar þau fjárfestu í honum voru fátækir námsmenn í Berlín sem ákváðu að ráðstafa stórum hluta af tekjum sínum í flygil sem tók mikið pláss í lítilli leiguíbúð. „Svo flytja þau til Íslands og ég elst fyrstu sex, sjö árin upp í lítilli kjallaraíbúð. Þar var einn flygill í lítilli stofunni og við systkinin vorum öll í einu herbergi,“ segir hann. „En flygillinn var þarna og hann stýrði öllu, var segullinn.“

Stundum hvarflar að Víkingi að þessi kaup hafi verið fjárhagslega óábyrg ákvörðun en hárrétt á sama tíma og mikill örlagavaldur í lífi hans sjálfs. „Þessi flygill var sem hlið inn í nýja heima. Og ef þau hefðu ekki gert það, en keypt aðeins stærri íbúð og verið með eldgamlan píanógarm, ég er alveg viss um að mín framtíð hefði orðið öðruvísi en hún varð.“ Móðir Víkings, Svana Víkingsdóttir, er sjálf píanóleikari og faðir hans, Ólafur Óskar Axelsson, er arkitekt.

Frábært listafólk fær ekki sviðið eins og það á skilið

Víkingur var sautján ára þegar hann komst inn í hinn virta Juilli­ard-tón­list­ar­skól­a í New York. Hann var meðal þrettán umsækjenda sem komust í gegnum nálarauga umsóknarferlisins. Hann kveðst hafa eftir námið áttað sig á því hve óréttlátur tónlistarheimurinn væri. „Það er mikið af frábærum listamönnum og -konum sem fá bara ekki sviðið sem þetta fólk á skilið,“ segir Víkingur.

Af þrettán manna bekknum sínum er hann sá eini sem starfar við að ferðast um heiminn og spila á tónleikum. „Allir hinir eru komnir annað hvort í aðrar starfsgreinar eða vinna á annan hátt við tónlist en kannski eins og þau stefndu að upphaflega. Ég er ekki að segja að það sé ekki stórkostlega fínt að vinna við tónlist á annan hátt en það er samt eitthvað í því,“ segir hann. „Þegar maður hugsar um allt þetta listafólk, þetta er svo grimmt. Það er einhver tímarammi sem þú hefur til að komast í gegnum þetta og svo ertu bara búinn að missa af því.“

Efaðist aldrei, nema einu sinni

Að vissu leyti sé það gæfa hans að hafa aldrei efast um það sem hann ætlar sér. „Ég hef alltaf ætlað mér að gera nákvæmlega það sem ég er að gera og ég leit á mig sem heimspíanista frá sjö, átta ára aldri. Það er svo skrýtið því ég var svo langt frá því að vera það en ég skilgreindi mig sem slíkan.“ Og það gerði hann ennþá sautján ára í skólanum í New York, „þó ég væri kannski ekki á sama stað og krakkar sem höfðu alist upp í allt öðru umhverfi og við meiri samkeppni en ég nokkurn tíma. Ég hef alltaf gert það og svona næstum aldrei efast um það.“

Það er þó ekki rétt að hann hafi aldrei efast. Það hefur komið fyrir en hann hristi efann fljótt af sér. „Einu sinni lagðist ég niður í sófann heima, seint 2012, þegar ég var 28 ára gamall. Ég man alltaf eftir þessu, þetta var í eina skiptið sem ég opnaðist fyrir þeirri hugsun að kannski myndi ég ekki vera þessi píanisti sem ferðaðist um heiminn, sem ég var samt. Eða fannst ég vera.“

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend
Víkingur var 22 ára þegar hann kynntist Höllu sem þá var 18 ára.

„Lagðist í sófann í fimm mínútur og talaði við konuna mína“

Á þeim tíma átti Víkingur sér þegar stóran og sístækkandi aðdáendahóp á Íslandi en var enn lítið þekktur í útlöndum. „Ég skildi ekki hvernig ég ætti að komast áfram því það var að einhverju leyti tengslanet á þeim tíma á Íslandi sem ekkert gat hjálpað mér. Það var enginn annar íslenskur einleikari erlendis og enginn hljómsveitarstjóri náttúrulega, og enginn sem hafði nein tengsl við umboðsmenn.“

Og þótt það hefði verið nóg að gera við að spila á stórum tónleikum hérlendis og nokkuð erlendis líka, hafði hann ekki miklar tekjur af píanóleiknum og dagatalið framundan var tómt. „Þá hugsaði ég bara: Ég er tuttugu og átta ára, það er eitthvað að. Þetta á ekki að vera svona,“ segir Víkingur. „Allir mínir uppáhalds píanistar eru á allt öðrum stað tuttugu og átta ára í þessu karríer-samhengi.“ En með hjálp Höllu Oddnýjar eiginkonu sinnar tókst honum að losa sig undan þessari bugun og halda áfram. „Ég lagðist í sófann í fimm mínútur og talaði við konuna mína. Hún talaði í mig kjark.“

Það tekur fimmtán ár að verða frægur á einni nóttu

Víkingur hefur líka fengið ýmis góð ráð á ferlinum. Nokkru eftir þetta hélt hann utan og lék  með austurríska píanóleikaranum Alfred Brendel á Ítalíu. Alfred, sem þá var um áttrætt, stappaði stálinu í píanóleikarann unga. „Hann sagði: Hafðu engar áhyggjur. Það tekur fimmtán ár að verða frægur á einni nóttu. Þetta er ótrúlega góð setning.“

Og Víkingur einsetti sér að gefa sig alltaf allan í hverja einustu tónleika sem hann lék á, sama hve smáir þeir væru. „Maður er að sá fræjum hér og þar með litlum sveitatónleikum, og ef maður reynir að spila alltaf eins og maður sé að fara að spila debútið sitt í Carnegie Hall, líka í litlu borgunum og úti á landi á Íslandi, þá á endanum fær maður það einhvern veginn til baka.“

Aldrei eins góður og hann vill verða

Þrátt fyrir ótrúlega velgengni og mikla æfingu setur hann markið alltaf enn hærra. „Ég er aldrei jafn góður og ég vil vera í tónlist. Samt er ég allt í lagi. En ég er aldrei sáttur,“ segir hann. „Ég er með ídeal sem ég mun aldrei ná. Ég verð alltaf svo stressaður þegar mér finnst ég vera að eyða tímanum og lífinu en ekki ná ídealnum í tónlist. En það er líka haldreipi fyrir mig í gegnum lífið.“

Hann er þakklátur fyrir að fá á hverjum degi tækifæri til að bæta sig. „Þetta er bara svo ógeðslega skemmtilegt. Ég fæ að vinna við að spila hundrað tónleika á ári, ferðast um heiminn og lifa ævintýralega skemmtilegu lífi þó það sé erfitt.“

Fannst hún svo falleg og spila fallega á píanóið

Ferðalögin geta sannarlega tekið sinn toll. Víkingur og Halla Oddný eiga eitt barn og annað er á leiðinni. „Ég heyri oft í símanum: Pabbi koma heim,“ segir Víkingur sem kveðst ótrúlega þakklátur fyrir litlu fjölskylduna sína.

„Ekkert af mínum ævintýrum, hvorki í tónlistinni né lífinu, væri mögulegt án Höllu,“ segir hann. Þau hafa verið saman frá því að Víkingur var 22 ára og Halla Oddný 18 ára. Hann sá hana spila á tónleikum í unglingavinnustarfi og hreifst af því hve fallega hún spilaði og hve falleg hún var þar sem hún lék á píanóið. „Við vorum að æfa saman í eitt sumar þegar hún var í þessu sumarstarfi og við fórum aftur og aftur í kaffipásur. Það var bara þannig.“

Hann segir að Halla eigi stóran þátt í öllu sem hann gerir, í verkefnum hans og plötum. „Hún vill alls ekki að ég tali mikið um það því hún er sannarlega engin eiginkona eða skilgreind út frá því. En staðreyndin er bara sú að mikið af hugmyndavinnunni minni er í endalausu samtali við hana.“

„Verðlaunin eru bara samkvæmisleikur“

Víkingur hefur hlotið fjölmörg verðaun. Hann var meðal annars kjörinn tónlistarmaður ársins hjá Gramophone 2019 og sama ár var Bach-plata hans valin sú besta hjá BBC Music Magazine. „Það er bara fyndið með þessi verðlaun að þau koma öll á sama tíma. Þú færð ein verðlaun og þá er eins og allir keppist við að gefa þér önnur,“ segir hann. „Þú ert allt í einu kominn með fimm verðlaun þegar þú fékkst aldrei nein verðlaun áður.“

Hógvær kveðst hann ekki taka þau sérstaklega hátíðlega. „Ég veit að þau skilgreina ekkert sem ég geri. Þau eru bara samkvæmisleikur og oft eru verðlaun meira fyrir þá sem veita þau en veita þeim viðtöku. En ég held ég sé á réttum stað með það sem ég er að fást við. Ég er með stjórn á mínu lífi að því leyti að ég þarf ekki að segja já við neinu og það er það sem ég hef alltaf stefnt að.“

Enginn er merkilegri en annar, mikilvægast a vera hamingjusamur

En hvernig tekst honum að vera ekki hrokafullur? „Ég er mjög hrokafullur. Ef þú bara vissir. Ég er það bara ekki í viðtölum,“ segir hann glettinn. „Ég lít að einhverju leyti mjög stórt á mig líka og svoleiðis en ég lít líka stórt á annað fólk. Það er eitthvað íslenskt, skandinavískt og norrænt að það er enginn merkilegri en annar. Það er rosalega gott og lengi megi það vera svoleiðis hér.“

Það sé ljóst að starf hans sé ekkert merkilegra en önnur, segir Víkingur, en hann kveðst heppinn að sinna því, þar sem honum þykir það svo skemmtilegt. „En annað fólk sem er í starfi sem því finnst skemmtilegt, það er bara sambærilegt, því það sem skiptir máli á endanum er hvernig þér líður og hve hamingjusamur þú ert í því frekar en verðlaun og hvað aðrir segja um þig.“

Sigurlaug Margrét Jónasdóttir ræddi við Víking Heiðar Ólafsson í Segðu mér á Rás 1. Hér er hægt að hlýða á viðtalið í heild sinni í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Klassísk tónlist

Flygillinn í Hörpu of gamall fyrir einleikstónleika

Tónlist

„Þetta var ólíkt öllu sem ég hafði áður heyrt“