Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Frans páfi hitti erkiklerkinn Sistani

06.03.2021 - 06:56
Frans páfi kemur að heimili Ali Sistani, erkiklerki sjítamúslíma í Írak og um veröld víða, í Najaf í Írak, 6. mars 2021
 Mynd: AP
Ali Sistani, erkiklerkur sjítamúslíma í Írak, tók á móti Frans páfa fyrsta, æðsta manni kaþólsku kirkjunnar, á heimili sínu í hinni helgu borg Najaf í morgun. Sistani, sem er níræður að aldri, tekur nær aldrei á móti gestum, segir í frétt AFP, en gerði undantekningu fyrir hinn 84 ára Frans, sem er fyrsti páfi sögunnar til að heimsækja Írak. Markmið ferðarinnar er tvíþætt; að blása hinum fáu kristnu mönnum sem enn búa í Írak móð í brjóst og rétta sjítum sáttarhönd.

Frans ku vera flestum páfum áhugasamari um þvertrúarlegt samtal og samstarf og hefur áður hitt að máli erkiklerka súnní-múslíma í Bangladess, Marokkó, Tyrklandi og fleiri ríkjum.

Sistani er almennt álitinn andlegur og trúarlegur leiðtogi sjítamúslíma, hvar sem er í heiminum. Þeir eru mun færri en súnní-múslímar þótt þeir séu í meirihuta í Írak. Fundur þeirra Sistanis er einn af hápunktum fjögurra daga heimsóknar páfans til Íraks, sem hófst í gær. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV