Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Forseti Paragvæ heimtar afsögn allra ráðherra sinna

06.03.2021 - 23:02
epa09055539 Police officers try to disperse protesters during a demonstration against the government and the President Mario Abdo Benitez for his management of the COVID-19 pandemic, in Asuncion, Paraguay, 05 March 2021.  EPA-EFE/NATHALIA AGUILAR
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Mario Abdo Benitez, forseti Paragvæ, hefur farið fram á afsögn allra ráðherra í ríkisstjórn sinni. Ástæðan er mikil óánægja almennings með slælega frammistöðu ríkisstjórnarinnar í baráttunni gegn COVID-19, sem meðal annars hefur brotist út í hörðum mótmælaaðgerðum og átökum við lögreglu.

Ráðherra fjarskiptamála, Juan Manuel Brunetti, greindi frá því í dag að forsetinn hefði beðið hann og alla aðra ráðherra um formlega afsagnarbeiðni og muni kynna breytingar á ríkisstjórninni í framhaldinu. „Hann mun tilkynna breytingarnar, en við viljum að allir borgarar landsins viti og skilji að boðskapur þeirra hefur náð eyrum forsetans,“ sagði Brunetti, enda virði forsetinn friðsamleg mótmæli og ákall um frið.

Gúmmíkúlur og táragas við þinghúsið

Til átaka kom í höfuðborginni Asuncion á föstudag þegar mótmælendur grýttu lögreglu með ýmsu lauslegu sem á vegi þeirra varð og lögregla brást við af fullri hörku og skaut gúmmíklæddum stálkúlum og táragasi að mannfjöldanum. Hefur lögregla verið sökuð um að ganga fram af allt of mikilli hörku miðað við aðstæður.

Heimsfaraldur COVID-19 hefur verið í örum vexti í Paragvæ að undanförnu. Smitum fjölgar dag frá degi og sjúkrahús landsins eru komin að þolmörkum. Því safnaðist fólk saman utan við þinghúsið í höfuðborginni á föstudag og krafðist afsagnar forsetans.

Áður hafði meirihluti öldungadeildar þingsins kallað eftir afsögn heilbrigðisráðherrans, sem sagði af sér á föstudag eftir fund með forsetanum, sem sjálfur hefur þó ekki gert sig líklegan til afsagnar. Ríflega 165.000 COVID-19 smit hafa verið staðfest í Paragvæ og yfir 3.200 dáið úr sjúkdómnum.