Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Búið að semja um bóluefnakaup fyrir rúma tvo milljarða

06.03.2021 - 07:45
Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Íslensk stjórnvöld hafa samið við fimm lyfjaframleiðendur um kaup á bóluefni fyrir rúma tvo milljarða króna. Þau hafa jafnframt tryggt sér kauprétt á bóluefni fyrir hátt í tvo milljarða til viðbótar.

Þetta kemur fram í svari heilbrigðisráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu.

Stjórnvöld hafa samið við AstraZeneca, Janssen ,CuraVac, Moderna og Pfizer/BioNTech um kaup á bóluefnum þeirra fyrirtækja. Það verður líklega samið við Novavax og líklega ekki við Sanofi. Óljóst er hvort samið verði við Reithera og Valneva. Þetta eru þau níu lyfjafyrirtæki sem eru á lista Evrópusambandsins yfir hugsanlega viðsemjendur vegna bóluefnakaupa. 

Búið er að semja um kaup á bóluefnum fyrir 2.150 milljónir króna og fjármagna 1.750 milljónir af þeim kaupum. Til viðbótar við þessa samninga stendur íslenskum yfirvöldum til boða að kaupa bóluefni fyrir 1.800 milljónir króna. Verði af því nema bóluefnakaupin samanlagt fjórum milljörðum króna.